
Rússar gerðu net- og tölvuárás á alþjóðlegu stofunina sem framfylgir banni við efnavopnum Organisation for the Prohibition of Chemical Weapons (OPCW) í Haag á meðan hún rannsakaði eiturefnaárásina á Skripal-feðginin í Salisbury á Suður-Englandi. Skýrt var frá þessu fimmtudaginn 4. október og vísað til upplýsinga frá öryggis- og leyniþjónustum Bretlands og Hollands.
Hollensk yfirvöld hafa nefnt fjóra starfsmenn leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) í þessu sambandi: Alexei Moronets, Evgeni Serebriakov, Oleg Sotnikov, Alexei Minin flugu 10. apríl frá Moskvu til Amsterdam með opinber vegabréf og var tekið á móti þeim af starfsmanni rússneska sendiráðsins.
Onno Eichelsheim, yfirmaður MIVD, njósna- og öryggisdeildar hollenska hersins, lýsti því af óvenjulega mikilli nákvæmni hvernig Rússarnir stóðu að verki.
Þremur dögum síðar lögðu þeir bílaleigubíl fyrir framan hótel nálegt byggingu OPCW. Í bílnum var sérstakur tækjanbúnaður sem nota mátti til að komast inn á net OPCW.
Aðförin að höfuðstöðvum OPWC var gerð eftir aðrar misheppnaðar árásir GRU á breska utanríkisráðuneytisins og rannsóknastofur breska hersins í Porton Down sem rannsakaði einnig árásina í Salisbury.
Hollensk yfirvöld höfðu hendur í hári mannanna og þeir voru sendir aftur til Moskvu. Tæki þeirra, þar á meðal magir farsímar, voru gerð upptæk og hafa þau nýst yfirvöldum við rannsókn á lögbrotum mannanna og hvers þeir leituðu. Yfirvöldin sögðu mennina hafa haft 20.000 dollara og 20.000 evrur í reiðufé í fórum sínum við komuna til Hollands.
Allir símarnir höfðu verið tengdir 9. apríl við fjarskiptamastur næst höfuðstöðvum GRU í Moskvu. Við handtökuna reyndu mennirnir að eyðileggja einn símanna.
Rússarnir voru með lestaramiða til Basel í Sviss og áttu bókuð sæti 17. apríl. Hollensk yfirvöld segja að þeir hafi ætlað að fara til Spiez í Sviss þar sem OPCW rekur rannsóknastofu.
Með nettengi-búnaði í bíl GRU-mannanna var ætlunin að hlera tölvusamskipti fólks. Ein tölvanna sem náðist hafði í september 2016 verið tengd inn á net hótels í Lausanne í Sviss þegar þar var haldin ráðstefna um lyfjamisnotkun íþróttamanna. Önnur hafði verið tengd tölvuinnbrotum í Malasíu og Brasilíu í tengslum við rannsóknina á árásina á MH17 farþegavélina yfir Úkraínu.