
Sérfræðingar Evrópusambandsins í fjölþátta hernaði og upplýsingarfölsunum birtu fimmtudaginn 26. mars yfirlit þar sem lýst er hvernig reynt er að grafa undan öryggiskennd Evrópubúa og annarra með falsfréttum og röngum söguburði á netinu um áhrifin af kórónaveirunni, Covid-19. Segja sérfræðingarnir að á tímum þegar útbreiðsla veirunnar sé hröð, hundruð þúsunda séu veik og þúsundir deyi skipti miklu að upplýsingar séu réttar og fluttar á réttum tíma. Þar geti skilið milli lífs og dauða. Vitnað er í Josep Borrell, utanríkismálastjóra ESB, sem sagði: „Með dreifingu falskra upplýsinga leika menn sér að mannslífum. Upplýsingafalsanir drepa.“
Sagt er að í tvo mánuði hafi Rússar stundað þennan ljóta leik. Sérfræðingarnir skráðu fyrsta dæmið um upplýsingafölsun á vegum ríkisreknu rússnesku Sputnik-fréttastofunnar 22. janúar 2020.
Frá upphafi hefur boðskapurinn verið sá sami: veiran er manngerð; vopn hannað af NATO. Þetta stef hefur verið endurtekið með tilbrigðum síðan. Nú er því haldið fram að Bandaríkjamenn hafi búið til veiruna; bandaríska varnarmálaráðuneytið; valdaelíturnar… Markmið þessa fjandsamlega bragðs sé að koma á heims-harðstjórn og tryggja bandarísk yfirráð; þriðja heims ríki – í raun allir sem búa í kringum 40. breiddargráðu – eru sagðir skotmörk illmennanna í vestri.
Ólíkar leiðir eru farnar til þess eins að grafa undan trausti. Sumir miðlar í þágu Kremlverja segja að faraldurinn sé sviðsettur. Aðrir halda því fram að hann leiði til ragnaraka, vegna hans hafi Schengen-kerfið hrunið, NATO sé í upplausn, ESB lamað, Eystrasaltsríkin dauðadæmd, engir læknar séu í Litháen og Úkraína sé í frjálsu falli. Öll áform um „hnattvæðingu“ séu úr sögunni. Kórónaveirunni er lýst sem Tsjernóbýl ESB. Síðan er hinu slegið fram aftur: Veiran er alls ekkert hættuleg. Það má lækna hana með saltlausn á fjórum dögum, hvert er vandamálið?
Vandinn er sá að ekki er unnt að „lækna veiruna með saltlausn“ segja sérfræðingar ESB. Hver sá sem ætli að fara að því ráði ógni ekki aðeins eigin lífi heldur lífi annarra.
Samhliða því sem leitast er við að ala á ótta hjá þeim sem gleypa við þessum upplýsingum og grafa undan trausti utan Rússlands í garð heilbrigðiskerfa einstakra landa endurómar þessi fölsunarvél þann boðskap rússneskra ráðamanna að þeir hafi „stjórn“ á ástandinu í Rússlandi. Frásagnir um þá „stjórn“ eru orðum auknar eins og annað.