Home / Fréttir / Rússneski varnarmálaráðherrann varar Finna og Svía við NATO-aðild – gamlar lummur segja Finnar

Rússneski varnarmálaráðherrann varar Finna og Svía við NATO-aðild – gamlar lummur segja Finnar

 

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, sagði þriðjudaginn 24. júlí að Rússar mundu grípa til sinna ráða ef Finnar og Svíar gerðust aðilar að NATO.

Ráðherrann lét þessi orð falla í ræðu í varnarmálaráðuneytinu um leið og hann sagði að NATO héldi nú úti fjölda flugvéla í austurhluta Evrópu og hefði auk þess komið upp stöðvum gegn fjölþáttaógnum (e.hybrid threats) í Finnlandi, Eistlandi, Póllandi, Þýskalandi og Frakklandi. Allt benti þetta til þess að varnarsamstarf þessara þjóða væri að aukast.

Í frétt finnska ríkisútvarpsins, Yle, um ræðuna er minnt á að varnarstefna Finna geri ráð fyrir að „NATO kostinum“ sé haldið opnum án þess að formlega sé sótt um aðild að bandalaginu. Þá hafa finnskir stjórnmálamenn sagt að þeir ætli að halla sér að Svíum við ákvarðanir í þessu efni eins og þeir gerðu á tíunda áratugnum þegar Finnar ákváðu að sækja um aðild að ESB.

Shoigu hefur horn í síðu aukins varnarsamstarfs ríkjanna og nefndi í því sambandi samning sem varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna, Finnlands og Svíþjóðar rituðu undir í Washington í maí til að auðvelda samstarf við NATO.

„Samningurinn sem ritað var undir í maí gerir þessum ríkjum kleift að taka fullan þátt í NATO-æfingum og til að nota NATO-herafla,“ sagði Shoigu. „Í staðinn hefur NATO fengið fullan, hindrunarlausan aðgang að lofthelgi og landhelgi þessara landa.

Ég legg áherslu á að með þessum skrefum stefna vestrænir félagar okkar að því að eyðileggja núverandi öryggiskerfi, ýta undir tortryggni og neyða okkur til að grípa til gagnaðgerða.“

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna.
Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna.

Viðbrögð Finna

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands, kippti sér ekki upp við ummæli rússneska ráðherrans og taldi umvandanir hans ekki annað en tilraun til að beina athygli frá vandræðum heima fyrir í Rússlandi.

Niinistö sagði að Rússar hefðu oft áður talað á þennan veg.

„Shoigu ráðherra eða Rússar almennt vilja ekki að Finnar og Svíar gangi í NATO. Þessi boðskapur er ekki nýr, við höfum heyrt hann oft áður. Já, Finnar geta sofið öruggir í rúmum sínum í kvöld,“ sagði finnski ráðherrann.

Hann taldi einnig að með þessum orðum vildi Shoigu reyna að berja í brestina heima fyrir með því að beina athygli frá erfiðum viðfangsefnum þar.

„Þetta kann að vera einhvers konar tilraun til að þétta raðirnar. Í Rússlandi glíma menn nú við ýmis stórvægileg innanríkisvandamál, ber þar líklega hæst breytingar á eftirlaunaaldri. Fólk fer kannski að hugsa um eitthvað annað en þær, sé alið á ótta við Vesturlönd,“ sagði Niinistö við Yle.

Jyri Raitasalo, herfræðiprófessor við finnska varnarmálaháskólann, telur ástæðulaust að hafa áhyggjur vegna orða Shoigus.

„Í mínum augum er þetta mjög hefðbundin leið Rússa til að lýsa mati sínu á stöðu öryggismála. Í því tilliti er ekkert nýtt að finna í nýjasta boðskapnum frá Moskvu – þetta er ekki annað en endurvinnsla á gömlum röksemdum sem tengust eldri atvikum,“ sagði prófessorinn.

Sauli Niinistö, forseti Finnlands (hann er ekkert skyldur varnarmálaráðherranum), ætlar í heimsókn til Rússlands í ágúst. Þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta í Helsinki 16. júlí fór Pútín lofsamlegum orðum um tvíhliða samskipti Rússa og Finna.

Heimild: Yle

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …