Home / Fréttir / Rússneski utanríkisráðherrann kvartar undan harðræði frönsku lögreglunnar á EM 2016

Rússneski utanríkisráðherrann kvartar undan harðræði frönsku lögreglunnar á EM 2016

 

Franskir lögreglumenn
Franskir lögreglumenn

Rússneska utanríkisráðuneytið kvartaði miðvikudaginn 15. júní við franska sendiherrann í Moskvu yfir framgöngu franskra yfirvalda gagnvart Rússum á EM 2016.

„Sé alið frekar á and-rússneskum tilfinningum kann það að spilla verulega andrúmslofti í samskiptum Rússa og Frakka,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, gagnrýndi Frakka sérstaklega fyrir að rannsaka 43 Rússa með því að stöðva langferðabíl þeirra. Franska sendiráðið segir að við stöðvun Rússanna hafi verið „farið að lögum í einu og öllu“.

Sergei Lavrov flutti ræðu í neðri deild rússneska þingsins miðvikudaginn 15. júní þar sem hann gaf til kynna að áhangendum rússneska landsliðsins hefði verið ögrað og gagnrýndi öryggisaðgerðir frönsku lögreglunnar gegn þeim. Skömmu síðar var Jean-Maurice Ripert, sendiherra Frakka, kallaður í utanríkisráðuneytið í Moskvu.

Utanríkisráðherrann sagði í þinginu: „Það var algjörlega óviðunandi sem gerðist þegar langferðabíll með meira en 40 Rússa var stöðvaður [af lögreglunni] og þess krafist að þeir færu úr bílnum til að sýna skilríki og gera grein fyrir sér.“

Hann sakaði Frakka um að brjóta alþjóðalög með því að stöðva Rússana og rannsaka þá. Þetta framferði bryti gegn Vínarsamkomulaginu um stjórnmálasamband ríkja og hann hefði þegar sent franska utanríkisráðherranum bréf og krafist þess að ekki yrði um frekari slíkar aðgerðir að ræða

Lavrov viðurkenndi að framkoma sumra áhangenda rússneska landsliðsins hefði ekki verið til fyrirmyndar. „Við getum ekki lokað augum okkar fyrir tilraunum til að líta fram hjá ögrandi aðgerðum áhangenda annarra landsliða,“ sagði ráðherrann.

Á vefsíðu sendiráðs síns sagði Ripert sendiherra eftir heimsókn sína í utanríkisráðuneytið að franska ríkisstjórnin væri staðráðin í að vinna að því með UEFA, Evrópska knattspyrnusambandinu, að koma í veg fyrir að vandræðamenn gætu eyðilagt EM 2016.

Langferðabíllinn með Rússana 43 var stöðvaður skammt frá Cannes við strönd Miðjarðarhafsins þriðjudaginn 14. apríl. Sumum farþeganna í bílnum hefur verið vísað frá Frakklandi. Þeirra á meðal er Alexander Shpríjin, formaður stuðningsmannahreyfingar rússneskrar knattspyrnu.

Rússar kepptu við Slókvaka í Lille í Norður-Frakklandi miðvikudaginn 15. júní, fóru Slóvakar með sigur, 2-1.

Allt fór tiltölulega vel fram á leiknum þótt Rússar kveiktu á blysi skömmu eftir að lið þeirra skoraði.

Lið Wales og Englands nota Lille sem bækistöð en liðin keppa í nágrannabænum Lens fimmtudaginn 16. júní.

Lögregla í Lille neyddist til að nota táragas síðdegis miðvikudaginn 15. júní þegar kom til átaka milli lögreglumanna og áhangenda.

Yfirvöld í Lille tilkynntu að fjórum Rússum yrði brottvísað, tveimur fyrir ólæti í nágrenni við brautarstöð og tveimur fyrir að hafa hornaboltakylfu og hamar í bíl sínum.

Franska lögreglan er með mikinn viðbúnað í Lens, 2.400 lögreglumenn, ríkislögreglumenn, öryggisverði og óeirðasveit. Bannað hefur verið að neyta áfengis á götum úti. Talið er að allt að 50.000 áhangendur enska landsliðsins muni fara til Lens þótt uppselt sé á leikvanginn sem tekur 35.000 manns.

 

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …