
Vjatsjeslav Volodin, forseti neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, óskar eftir að kannað verði hvort unnt sé að rifta tvíhliða samningnum við Norðmenn frá árinu 2020 um skiptilínu mill Noregs og Rússlands í Barentshafi og Norður-Íshafi.
Frá þessu er sagt á norsku vefsíðunni BarentsObserver þriðjudaginn 5. júlí en í rússneska ríkisdagblaðinu Rossiskja Gazeta hafði birst frétt um að Mikhaíl Matveev, þingmaður Kommúnistaflokksins, hefði hreyft málinu á þingfundi.
„Nú sjáum við hvernig Norðmenn hindra að matur og varningur berist til Svalbarða,“ sagði Matveev og vísaði þar til þess að Norðmenn bönnuðu rússneskum flutningabílum sem komu frá Múrmansk með birgðagáma að fara um landamærahliðið Storskog skammt frá Kirkenes. Vísuðu þeir til evrópskra refsireglna vegna hernaðar Rússa á hendur Úkraínumönnum. Átti að flytja birgðirnar landveg um Noreg til Tromsø þaðan sem gámarnir yrðu fluttir með skipi til Barentsburg á Svalbarða þar sem Rússar stunda kolanámugröft, Unnt er flytja gámana með skipi beint frá Múrmansk til Barentsburg.
Rússneski Kommúnistaflokkurinn sætti sig mjög illa við samkomulagið við Norðmenn frá 2010 og greiddi atkvæði gegn fullgildingu þess. Forsætisráðherrar landanna þá, Jens Stoltenberg og Dmitríj Medvedev, gerðu samninginn.
Þingflokkur kommúnista í Dúmunni heldur því fram að Rússar hafi látið Norðmenn hafa 175.000 ferkílómetra svæði í Barentshafi. Mikhail Matveev sagði þetta hafa verið gert á sínum tíma til að styrkja tengslin milli þessara tveggja norðurslóðaþjóða.
Í svari við athugasemd Matveevs fól þingforsetinn utanríkismálanefnd Dúmunnar að kanna hvort rifta ætti samningnum.
Með samningnum frá 2010 var 40 ára lögsögudeila milli ríkjanna leidd til lykta og var litið á niðurstöðuna sem lið í viðleitni Rússa til að fækka ágreiningsefnum í samskiptum við nágranna sína. Rússneskum stjórnvöldum þætti miklu skipta að laga ímynd sína með aðgerðum sem sýndu virðingu þeirra fyrir alþjóðalögum og reglum.
Stefnt var að samstarfi við olíuleit og vinnslu á Barentshafi. Það hefur skilað litlu í áranna áranna og eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar í ár slitu ríkisolíufélögin Equinor og Rosneft allri samvinnu sinni.
Samstarf um stjórn fiskveiða er enn virkt og gilda sameiginlegar reglur um kvóta í Barentshafi sem þykja góð fyrirmynd á alþjóðavettvangi.