
Sergeij Andreev, sendiherra Rússland í Póllandi, hefur dregið til baka ummæli sín frá föstudeginum 25. september þar sem hann gaf til kynna að Pólverjar bæru sjálfir hluta ábyrgðar vegna seinni heimsstyrjaldarinnar.
Sagði hann við einka-sjónvarpsstöðina TVN24 að Pólverjar hefðu hvað eftir annað staðið gegn myndun bandalags gegn nazistastjórninni í Berlín. Sendiherrann var kallaður í utanríkisráðuneytið í Varsjá mánudaginn 28. september. Efndi hann til blaðamannafundar eftir heimsókn sína í ráðuneytið og sagði:
„Mér þykir leitt að hafa verið ónákvæmur um eitt atriði. Ég ætlaði ekki að segja að Pólverjar væru samábyrgir fyrir upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Það vakti alls ekki fyrir mér að móðga pólsku þjóðina. Rússar virða hetjulega baráttu pólsku þjóðarinnar gegn hernámi nazista.“
Eftir lok styrjaldarinnar voru Pólverjar undir hæl Moskvuvaldsins í 45 ár þegar kommúnistar sátu við völd. Pólverjar reiddust þegar sendiherrann sagði í sjónvarpsviðtalinu að Sovétmenn hefðu ráðist inn í Pólland „í varnarskyni“ og hann kallaði Austur-Pólland „vesturhluta Hvíta-Rússlands og vesturhluta Úkraínu“.
Pólska utanríkisráðuneytið sagði að sendiherrann hefði túlkað söguna á „hræsnisfullan“ hátt.
Í breska blaðinu The Daily Telegraph segir að í Póllandi telji flestir að Þjóðverjar hafi sýnt pólsku þjóðinni fullnægjandi iðrun vegna hinna miklu hörmunga sem hún mátti líða undir harðstjórn nazista. Hið sama eigi ekki við um Rússa, þeir hafi ekki einu sinni viðurkennt sómasamlega voðaverkin sem Sovétmenn unnu á Pólverjum.
Minnt er á pólsk stjórnvöld séu í hópi þeirra sem helst gagnrýna yfirgang Rússa gagnvart Úkraínumönnum.