Home / Fréttir / Rússneski sendiherrann í Washington einangrast

Rússneski sendiherrann í Washington einangrast

Sergeij I. Kisljak, sendiherra Rússlands í Washington.
Sergeij I. Kisljak, sendiherra Rússlands í Washington.

Tveir samstarfsmenn Donalds J. Trumps Bandaríkjaforseta hafa lent í vandræðum vegna þess að þeir létu undir höfuð leggjast að skýra frá samskiptum sínum við Sergeij I. Kisljak, sendiherra Rússlands, í Washington. Michael Flynn neyddist til að segja af sér sem þjóðaröryggisráðherra Trumps þegar upplýst var að hann hafði ekki skýrt varaforseta Bandaríkjanna rétt frá skiptum sínum við Rússa. Nú er sótt að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, fyrir að hafa þagað um tvö samtöl sín við sendiherrann. Fyrir utan þetta hefur verið skýrt frá því að rússneski sendiherrann hitti Jared Kushner, tengdason Trumps og ráðgjafa, eftir sigur Trumps í forsetakosningunum og áður en hann var settur í embættið.

Í The New York Times föstudaginn 3. mars er ferill Kisljaks (66 ára) rakinn. Hann hóf störf í utanríkisþjónustunni á tíma Sovétríkjanna. Í marga áratui hefur hann átt samskipti við bandaríska emættismenn og undanfarin níu ár hefur hann sett svip á elítuna í Washington, kurteis og glaðbeittur með gott vald á ensku en jafnframt staðfastur málsvari sjáfbirgingslegrar stefnu rússneskra stjórnvalda.

Þegar honum er boðið í hugveitur til að ræða afvopnunarmál lætur hann tækifærið ekki ónotað til að verja íhlutun Rússa í Úkraínu og til að skamma Bandaríkjamenn fyrir það sem hann kallar hræsni – síðan býður hann viðmælanda sínum til kvöldverðar.

Í nóvember 2016 flutti Kisljak fyrirlestur í Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Þar var hann spurður um ásakanir um afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum. Hann sagði rússnesk stjórnvöld ekki standa að baki tölvuþrjótum. Á hinn bóginn væri eðlilegt að stjórnarerindrekar erlendra ríkja færu á flokksþing eða á fundi þar sem forsetaframbjóðendur ræddu um utanríkismál. Sjálfur hefði hann unnið svo lengi í Bandaríkjunum að hann þekkti „næstum alla“.

Kisljak er sérfræðingur í afvopnunarmálum með gráðu frá verkfræðilegri eðlisfræðistofnun í Moskvu. Hann starfaði fyrst í rússneska sendiráðinu í Washington frá 1985 til 1989, á lokaárum Sovétríkjanna. Hann varð fyrsti fulltrúi Rússa gagnvart NATO og sendiherra í Belgíu frá 1998 til 2003. Síðan var hann í fimm ár vara-utanríkisráðherra í Moskvu. Hann var skipaður sendiherra í Washington árið 2008.

Sumir sérfræðingar í málefnum Rússlands líkja honum við Anatolíj F. Dobrijnin sem var sendiherra Sovétríkjanna í Washington frá 1962 til 1986 og lét að sér kveða í stjórnmálum bæði í Moskvu og Washington. Bent er á að þar til fyrir skömmu hafi Kisljak alls ekki verið eins sýnilegur og Dobrijnin í Washington á sínum tíma og þeim mun minna hafi farið fyrir honum í Moskvu.

Öllum sem það vilja vita er ljóst að bandarískar njósnastofnanir fylgjast vel með rússneska sendiherranum í Washington og hlera meðal annars síma hans. Fimmtudaginn 2. mars létu rússneskir embættismenn í ljós óánægju með að fundið væri að því sem sendiherrann gerði og að í sumum fjölmiðlum væri látið að því liggja að hann stundaði njósnir.

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, notaði vikulegan blaðamannafund sinn til að hella úr skálum reiði sinnar vegna þess sem hún kallaði lítinn metnað bandarískra fjölmiðla. Hún sagði:

„Ég ætla að upplýsa ykkur um hernaðarleyndarmál: Diplómatar vinna vinnuna sína og hún felst í því að skapa sér sambönd í löndunum þar sem þeir starfa. Allir eiga að vita þetta. Skapi þeir sér ekki þessi sambönd, taki þeir ekki þátt í viðræðum eru þeir ekki diplómatar.“

Þar til Vladimir Pútín varð forseti Rússlands að nýju árið 2012 og spenna magnaðist aftur milli ráðamanna í Washington og Moskvu var Kisljak vinsæll gestgjafi, einkum um helgar í setrinu á Pioneer Point í Maryland skammt frá Washington. Obama ákvað að þessu setri skyldi lokað í desember 2016 vegna grunsemda um tölvuárásir Rússa í bandarísku forsetakosningabaráttunni.

Kisljak hefur gefið til kynna að hann hverfi brátt frá Washington. Talið er líklegt að harðlínumaður úr röðum rússneskra hershöfðingja taki við af honum. Í Washington umgangast menn ekki Kisljak á sama hátt og áður. Hann er einangraður og hefur lýst undrun yfir að þeir sem áður þáðu boð hans reyni nú að forðast sig.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …