Home / Fréttir / Rússneski Norðurflotinn hefur æfingar

Rússneski Norðurflotinn hefur æfingar

Hluti rússneska Norðurflotans í heimahöfn á Kóla-skaga.
Hluti rússneska Norðurflotans í heimahöfn á Kóla-skaga.

Innan rússneska Norðurflotans, öflugasta af fimm herflotum Rússa, búa menn sig nú undir sérstakar æfingar sem ná til helstu þátta hans. Yfirmaður rússneska flotans, Vladimir Koroljev, stjórnar æfingunum sem munu standa í „nokkra daga“.

Frá þessu er skýrt er Barents Observer miðvikudaginn 9. ágúst þar sem vitnað er í samtal fulltrúa Norðurflotans við rússnesku fréttastofuna Interfax. Hann segir að um 50 herskip, kafbátar og stuðningsskip taki þátt í æfingunum. Þá sendir flugherinn einnig flugvélar og þyrlur til þátttöku í æfingunum.

Litið er á æfingu flotans sem lið í undirbúningi undir þátttöku hans í mikilli sameiginlegri heræfingu Rússa og Hvít-Rússa, Zapad 2017, sem efnt verður til 14. til 20. september og verður einkum í Hvíta-Rússlandi og rússnesku hólmlendunni Kaliningrad við Eystrasalt, milli Litháens og Póllands. Talið er að 60.000 til 100.000 manns taki þátt í Zapad 2017, mestu æfingu af þessum toga í aldarfjórðung. Ríkisstjórnir NATO-ríkja í nágrenni Rússlands og Hvíta-Rússlands hafa lengi lýst áhyggjum af  æfingunni í september.

Um þessar mundir eru nokkur öflug skip úr rússneska Norðurflotanum á leið til heimaslóða eftir þátttöku í flotasýningu í St. Pétursborg. Þar á meðal eru orrustubeitiskipið Pétur mikli (Pjotr Velikíj) og risakafbáturinn Dmitrij Donskoj af Typhoon-gerð. Talið er líklegt að skipin taki þátt í flotaæfingunni sem nú er að hefjast.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …