Home / Fréttir / Rússneski Norðurflotinn fær stórt landgönguskip

Rússneski Norðurflotinn fær stórt landgönguskip

Ivan Gren
Ivan Gren

Rússneski Norðurflotinn verður á næstunni efldur með nýju landgönguskipi, Ivan Gren. Skipið hefur verið 14 ár í smíðum í Jantar-skipasmíðastöðinni í Kaliningrad við Eystrasalt en brátt verður því siglt þaðan til Barentshafs.

Ivan Gren verður stærsta landgönguskip Norðurflotans. Um borð er unnt að hafa 13 stóra skriðdreka og 36 brynvarða mannflutningavagna, sagði rússneska fréttastofan TASS þriðjudaginn 19. júní. Skipasmíðastöðin segir að tilraunasiglingum á Eystrasalti hafi lokið snemma í maí. TASS segir að skipið verði sent til Norðurflotans.

Alls geta 300 landgönguliðar verið um borð í skipinu. Fyrir utan bryndrekana eru skýli fyrir tvær Ka-29 flutningaþyrlur í Ivan Gren.

Á vefsíðunni Barents Observer segir að rúm 20 ár séu liðin frá því að í Norðurflotanum var stærra landgönguskip en flotinn fær nú. Árið 1997 var skipinu, Aleksandr Nikolajev, lagt. Nú ræður Norðurflotinn yfir fjórum minni landgönguskipum. Þau voru öll smíðuð á árunum 1976 til 1985. Þau taka nú þátt í stórri æfingu rússneska Norðurflotans, stærstu æfingu hans á Barentshafi í 10 ár.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …