Home / Fréttir / Rússneski herinn hrakinn frá Kharkiv

Rússneski herinn hrakinn frá Kharkiv

Flak af rússneskum skriðdreka skammt frá Kharkiv.

Allt bendir til að enn einu sinni hafi rússneski herinn farið halloka í Úkraínu. Ihor Terekhov, borgarstjóri í Kharkiv, næst stærstu borg landsins, segir við BBC laugardaginn 14. maí að her Rússa hafi hörfað frá svæðinu umhverfis borgina og haldi nú í áttina að rússnesku landamærunum sem er aðeins í 50 km fjarlægð.

Að sögn borgarstjórans höfðu Rússar aðeins náð tangarhaldi á norðaustur hluta borgarinnar.

Danski herfræðingurinn Peter Viggo Jakobsen segir við Jyllands Posten að þarna sé um að ræða umstalsvert áfall fyrir Rússa.

„Rússarnir reyndu að umkringja borgina en nú hafa þeir einfaldlega verið hraktir á brott,“ segir hann. Að hans mati gegndi Kharkiv lykilhlutverki við framkvæmd innrásarstefnu Rússa:

„Sé ætlunin að ráða yfir austurhluta Úkraínu er óhjákvæmilegt að ná völdum í stærstu borg héraðsins. Það segir sig sjálft. Rússar kynntu fasa tvö til sögunnar og sögðust ætla að ná yfirráðum í Donbas, það hangir nú á bláþræði. Rússarnir hafa ekki nægilegt afl til að ná því fram á vígvellinum sem þeir ætla sér,“ segir hann og bendir á að Rússar búi enn við mikinn þrýsting sunnar í landinu, í Mariupol, þar sem þeim hafi ekki enn tekist að vinna sigur á úkraínskum hermönnum í stáliðjuverinu Azovstal.

Hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir í síðustu úttekt sinni á gangi stríðsins aðfaranótt laugardags 14. maí að rússneski herinn hafi allur farið frá Kharkiv-svæðinu: „Úkraínumenn virðast hafa sigrað í orrustunni um Kharkiv,“ segir þar og einnig:

„Rússneski herinn hefur líklega ákveðið að hörfa alveg frá stöðvum sínum umhverfis borgina Kharkiv vegna úkraínskra gagnsókna og vegna þess að lítil von er um liðsstyrk.“ ISW líkir afturköllun rússneska heraflans frá Kharkiv við það þegar Rússar hörfuðu frá Kyív.

Peter Viggo Jakobsen er ósammála þeim samanburði.

„Í Kyív lágu herstjórnarlegar ástæður að baki ákvörðun Rússa um að hörfa. Í Kharkiv neyddust þeir til þess,“ segir hann. Að hans mati kann margt að gerast á næstunni:

„Enn höfum við ekki sé áhrifin af mjög flóknum skotflaugakerfum sem Bandaríkjamenn hafa sent til Úkraínu þar sem þau eru ekki í notkun á vígvellinum. Þá er einnig hugsanlegt að Rússar geti kallað út fleiri hermenn, ég er þó tekinn að efast um að það gerist.“

Um 1,5 milljón íbúar eru í Kharkiv. Borgarbúar þar voru fyrstir í Úkraínu til að ganga Sovétvaldinu á hönd í desember 1917, þar varð fyrsta höfuðborgin í úkraínska hluta Sovétríkjanna.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …