Home / Fréttir / Rússneski herinn efnir til norðurhjaraæfingar

Rússneski herinn efnir til norðurhjaraæfingar

Rússar æfa fallhlífarhernað á norðurhjara.
Rússar æfa fallhlífarhernað á norðurhjara.

Í Íshafinu fyrir norðan Rússland og 260 kílómetra austan við Svalbarða er eyjaklasinn Frans Jóseps-land. Í honum eru 192 eyjar. Leiðangursmenn í heimskautsleiðangri (1872-1874) á vegum austurríska-ungverska keisaradæmisins nefndu eyjaklasann eftir keisara ríkisins. Árið 1926 voru eyjarnar innlimaðar í Sovétríkin.

Í lok apríl héldu Rússar heræfingu á svæðinu.  Hún var haldin til að minnast þess að 75 ár eru frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk í Evrópu.  Þó heræfingin hafi fengið talsverða athygli í rússneskum og austur – evrópskum fjölmiðlum var nánast ekkert fjallað um hana í fréttum á Vesturlöndum. Ástæðan er sú að þar eru fréttir af kórónuveirufaraldrinum alls ráðandi segir fréttamaður kanadíska miðilsins CBC News en frétt um heræfinguna birtist þar 11. maí.

Heræfingin hófst með því að rússneskir hermenn stukku úr herflugvél í mikilli hæð. Þeir svifu síðan til jarðar í fallhlífum og þegar þeir lentu tók við þriggja daga heræfing á jörðu niðri. Létu þeir vont veður ekki stoppa sig. Fram kemur í grein CBC News að kanadískir hernaðarsérfræðingar hafi lengi haldið því fram að hernaðaraðgerðir á norðurhjara séu ómögulegar vegna veðurfarsins þar en æfing Rússa sýnir að svo þarf ekki að vera. Mikilvægt er fyrir heri NATO-ríkjanna að læra af þessu.

Hvert var markmið æfingarinnar?

Samkvæmt grein CBC News eru öryggis- og varnarmálasérfræðingar í Kanada ósammála um hvert hafi verið markmið æfingarinnar á Frans Jóseps-landi og hvort henni hafi verið ætlað að hræða aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO).  Andrea Charron er forstöðumaður öryggismálastofnunar Manitobaháskóla (e. University of Manitoba Centre for Defense and Security Studies) og jafnframt sérfræðingur um Heimskautshernað. Að hennar mati þá ættu NATO ríkin að varast að lesa of mikið í æfinguna.  Það er ekkert nýtt að rússneskum hermönnum séu falin afar erfið verkefni.  Það má heldur ekki gleyma því að stjórnvöldum þar í landi gengur illa að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum. Þannig hafa yfir 200 þúsund tilfelli verið skráð í Rússlandi. Því hentar stjórninni í Kreml prýðilega að setja á svið spennandi æfingu sem getur dregið athygli umheimsins frá COVID-faraldrinum.

Að mati Rob Hueberts, sem er varnarmálasérfræðingur við háskólann í Calgary, þurfa Vesturlönd að setja æfinguna á Frans Jóseps-landi í samhengi við norðurslóðastefnu Rússa.  Hann telur að með æfingunni séu Rússar tvímælalaust að senda þau skilaboð til NATO-ríkjanna að þeir ætli sér að vera hernaðarlegt stórveldi á heimskautssvæðinu.  Sá áhugi kemur til af tvennu.  Rússar hafa hug á að nýta, og þá jafnframt verja, þær auðlindir sem hægt verður að vinna nyrst í Rússlandi haldi hitastigið áfram að hækka á þessum slóðum.  Það skiptir Rússa ekki síður máli að þeir byggja fælingarmátt sinn að miklu leyti á kjarnaflaugakafbátum sem sigla frá kafbátalægjum á Kólaskaga við heimskautsbaug og þau verða þeir að verja.

Vegna þess hve Rússar leggja mikla áherslu á norðurslóðir segir Andrea Charron að mikilvægt sé fyrir stjórnmálamenn að átta sig á því hvað vaki fyrir þeim þar. Hún óttast að ráðamenn í NATO-ríkjunum skilji ekki stefnu Rússa varðandi heimskautssvæðið og þá sérstaklega áætlanir rússneskra hernaðaryfirvalda.  Á sama tíma hafa Rússar áhyggjur af áhuga NATO á svæðinu. Að mati Charron er staðan því viðkvæm og ekki bætir úr skák að nú eru óvissutímar í alþjóðamálum, ekki síst vegna COVID-faraldursins. Því þurfi ekki mikið út af að bera í samskiptum NATO og Rússlands á heimskautssvæðinu svo spenna magnist hratt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …