Home / Fréttir / Rússneski flotinn við „lifandi“ flugskeytaæfingar á Svarta hafi

Rússneski flotinn við „lifandi“ flugskeytaæfingar á Svarta hafi


Rússar banna að skip sem þetta flytji korn frá Úkraínu um Svarta haf.

Rússneski flotinn efndi til „æfinga“ á norðvestur hluta Svarta hafs að sögn varnarmálaráðuneytisins í Moskvu að morgni föstudagsins 21. júlí. Tekið var fram að beitt hefði verið flugskeytum til að granda skotmarki á hafi úti.

Ráðuneytið segir að skotið hafi verið stýriflaugum frá rússneskum herskipum á Svarta hafi á „skip sem var á ferð á æfingasvæði í norðvestur hluta Svarta hafs“. Áður höfðu yfirvöld í Moskvu tilkynnt að þau teldu öll skip á þessu svæði á leið til Úkraínu lögmæt hernaðarleg skotmörk.

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að myndir teknar úr drónum og aðrar upplýsingar staðfesti árangur þess að vopnum var beitt í æfingaskyni, umrætt skip hafi eyðilagst eftir að flugskeytið hitti það. Þá segir ráðuneytið að rússneski flugherinn aðstoði flotann við að loka umræddu svæði fyrir ókunnum skipaferðum.

Rússnesk yfirvöld sögðu miðvikudaginn 19. júlí að frá og með fimmtudeginum 20. júlí mundu þau líta á öll skip á leið til Úkraínu um Svarta haf sem „hugsanleg herskip“.

Spenna á Svarta hafi hefur magnast jafnt og þétt frá því í byrjun vikunnar þegar ráðamenn í Moskvu ákváðu að rifta samningi við Úkraínumenn og Tyrki um útflutning á korni frá Úkraínu. Gætir áhrifa riftunar Rússa nú þegar á mörkuðum um heim allan og verða fátækar þjóðir í Afríku og Asíu verst úti vegna þessarar ákvörðunar Vladimirs Pútins.

Forsjá kornsölusamningsins var í höndum Tyrkja og Sameinuðu þjóðanna, hann heimilaði skipum með korn frá Úkraínu að sigla eftir afmörkuðum, umsöndum öruggum leiðum um Svarta haf.

Rússar ráðast ekki aðeins á skip á Svarta hafi heldur einnig mannvirki til að hindra kornsölu frá Úkraínu. Þeir hafa gert drónaárásir á Odessa og að skaðað að minnsta kosti 19 manns.

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fordæmir árásir Rússa harðlega.

Bandaríkjastjórn hefur varað við því að Rússar hafi lagt mikið af tundurduflum á siglingaleiðir á Svarta hafi til að granda flutningaskipum. Á sumum þessara svæða eru einnig tundurdufl frá Úkraínuher til að hindra að ráðist verði til landgöngu frá Svarta hafi.

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …