Home / Fréttir / Rússneski flotinn fjölgar æfingum við Noreg

Rússneski flotinn fjölgar æfingum við Noreg

 

Rússnesk herskip á æfingu skammt frá Noregi.

Rússar hafa hvað eftir annað efnt og boðað til skotæfinga við strendur Noregs undanfarin ár. Í sjálfu sér er ekki nýtt að efnt sé til slíkra æfinga við Kólaskagann þar sem rússneski Norðurflotinn hefur aðsetur eða á Barentshafi. Kristian Åtland, rannsóknastjóri við rannsóknaóknarstofnun norska hersins, Forsvarets forskningsinstitutt (FFI), segir hins vegar við norska ríkisútvarpið (NRK) miðvikudaginn 27. júlí að undanfarin ár hafi Rússar boðað til þessara æfinga sífellt sunnar undan strönd Noregs.

Þegar Åtland er spurður hvað valdi þessu segir hann að stundum setji Rússar af stað æfingu til að skapa vandræði vegna boðaðra æfinga á vegum NATO. Það ergi þá að NATO standi að æfingum í Norður-Noregi eða á sjó fyrir norðan heimskautsbaug og tiltölulega nærri Kólaskaga.

Efni Rússar til skotflaugaæfinga er svæðið sem þeir loka vegna þeirra mjög stórt. Þessar æfingar í norskri efnahagslögsögu eða utan hennar þrengja því stundum mjög að norska fiskiskipaflotanum. Hann verður að laga sig að ákvörðunum Rússa, oft með skömmum fyrirvara.

„Þegar Rússar loka loftrými og stórum hafsvæðum í langan tíma þýðir það að sjómenn verða að sigla skipum sínum umhverfis þessi svæði. Það kann að leiða til mikils aukakostnaðar,“ segir Kristian Åtland við NRK.

Útvarpsmenn ræddu einnig við Odd Kristian Dahle, upplýsingafulltrúa samtakanna Fiskebåt, sem sagði að vandræði vegna æfinga Rússa hefðu aukist undanfarin ár, einkum á stórum svæðum á Barentshafi. Tilkynningar um lokun þeirra berist oft með skömmum fyrirvara sem auki á vandræðin. Fyrir útgerðir sé mikilvægt að viðvörunartíminn sé langur.

Oft séu skipin rekin af miðum einmitt þegar afli er góður. Það kosti umstang að koma sér á brott fyrir utan tapið af því að fá ekki að fiska á góðum miðum á þeim tíma þegar þau gefi mest af sér. Skipstjórar eigi engan annan kost en að hypja sig tafarlaust á brott.

NATO efndi í nóvember 2018 til mikillar æfingar á norðurslóðum undir heitinu Trident Juncture. Þá tilkynntu Rússar um stórt skotæfingarsvæði sitt á miðju svæðinu sem NATO ætlaði til eigin æfingar. Ákvörðun Rússa var pólitísk en ekki hernaðarleg því að þeir hleyptu ekki af einu skoti. NATO hélt hins vegar sínu striki og nýtti allt svæðið sem upphaflega var ákveðið fyrir æfinguna.

Haldi Rússar sig utan 12 mílna landhelgi Noregs eru þeir á alþjóðlegu hafsvæði með tilliti til heræfinga og geta skotið því sem þeir vilja.

Åtland segir óheppilegt að Rússar færi sig nær Noregi að þessu leyti. Það auki líkur á hættulegum atvikum. Þá sé óæskilegt að þessi breyting á æfingamunstri Rússa festist í sessi sem eðlilegur hlutur. Norðmenn haldi sig að jafnaði innan eigin efnahagslögsögu við skotæfingar sínar. Óhugsandi sé að norskum herskipum yrði siglt upp undir Kólaskaga til skotæfinga.

Kristian Åtland segir miklu skipta að Norðmenn láti Rússa ekki hræða sig. Norski herinn haldi sínu striki með eigin æfingum í norðri og í samvinnu við bandamenn sína.

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …