
Stjórnendur norskra fiskiskipa þora ekki að stunda veiðar á miðum í Barentshafi af ótta við rússneskar skotflaugar og herskip segir í frétt norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 föstudaginn 14. október.
„Þegar skotflaugar þjóta yfir skipunum líður mönnum ekki sérstaklega vel,“ segir Audun Maråk hjá samtökum úthafsveiðiskipa.
Í fréttum sjónvarpsstöðvarinnar sagði að þeim fjölgaði sem teldu að nýtt kalt stríð væri hafið milli austurs og vesturs og dæmin um það séu á fáum stöðum skýrari en í nágrenni Noregs.
Hernaðarumsvif Rússa hafi aukist til muna á Barentshafi undanfarin tvö ár. Þetta bitni á norskum fiskveiðum því að skipstjórar þori einfaldlega ekki að stunda veiðar á ákveðnum miðum á Barentshafi af ótta við rússneskar skotflaugar og herskip.
„Það hefur mjög mikið gengið á úti á Barentshafi undanfarna daga, beitt hefur verið alls konar stórskotavopnum. Þetta náði hápunkti á miðvikudaginn [12. október] þegar þremur langdrægum eldflaugum var skotið á loft,“ sagði Thomas Nilsen, ritstjóri The Independent Barents Observer við fréttamann TV2.
Útgerðarmenn krefjast þess af norskum stjórnvöldum að þau taki málið í sínar hendur. Þeim var sent bréf föstudaginn 14. október þar sem spurt var hvað yfirvöld ætluðu að gera til að stöðva það sem útgerðarmenn kalla óviðunandi ástand.
Nú er svo komið að skotæfingar kjarnorkuknúinna rússneskra kafbáta og annars konar dramatísk sýning á rússneskum hernaðarmætti er orðið daglegt brauð í næsta nágrenni Noregs á norðurslóðum.
Vegna þessa ástands þora norskir sjómenn ekki lengur að stunda veiðar á stórum svæðum á austurhluta Barentshafs. Rússnesk fiskiskip láta umsvif rússneska herflotans hins vegar ekki trufla sig og stunda þau veiðar bæði í rússneskri og norskri lögsögu.
Í 40 ár hafa Norðmenn og Rússar átt samstarf um stjórn fiskveiða á Barentshafi. Norskir og rússneskir vísindamenn gera tillögu um leyfilegan hámarksafla á grundvelli sameiginlegra rannsókna.
Rannsóknirnar er ekki unnt að stunda á viðunandi hátt nema sýni séu tekin beggja vegna markalínunnar milli Noregs og Rússlands í Barentshafi. Við venjulegar aðstæður gengur þetta eftir án vandræða en undanfarin tvö ár hafa starfsmenn norsku hafrannsóknastofnunarinnar ekki fengið að fara inn á rússneska hluta Barentshafs.
Sissel Rogne, forstjóri norsku stofnunarinnar, segir að Rússar hafi ekki gefið neina skýringu á banni sínu. Hann telur að neitunina megi rekja til veðrabrigða í samskiptum rússneskra og norskra yfirvalda.
Norskir sjómenn kvarta einnig undan því að Rússar færi sig upp á skaftið og sendi flota sinn inn á norskt yfirráðasvæði. Þar verði Norðmenn einnig að gæta sín við veiðar, 35 sjómílur innan eigin efnahagslögsögu.
Thomas Nilsen segir að Rússar hagi sér eins og stórveldi sem telji sér heimilt að nota Barentshafið sem æfingasvæði fyrir allar greinar herafla síns. „Það er áhyggjuefni að búa í nágrenni við slíkt,“ sagði ritstjórinn við TV2.
Norsk stjórnvöld hafa nú þegar beint því til Rússa að hafa sig hæga á þessum slóðum. Það hefur ekki haft nein áhrif.
Fulltrúar Noregs og Rússlands hittast á árlegum fundi um fiskveiðimál í næstu viku. Norðmenn ætla að árétta áhyggjur sínar af stöðu mála á fundinum en vænta ekki mikils árangurs þegar kemur að hernaðarlega þættinum þótt rannsóknaþátturinn vefjist ekki fyrir fundarmönnum.
Heimild: TV Noregi.