Home / Fréttir / Rússneski flotinn athafnasamur í kafi og lofti í nágrenni Íslands

Rússneski flotinn athafnasamur í kafi og lofti í nágrenni Íslands

Rússnesk eftirlits- og kafbátaleitarvél á flugi fyrir austan Ísland.
Rússnesk eftirlits- og kafbátaleitarvél á flugi fyrir austan Ísland.

Tvær rússneskar Tu-142 eftirlits- og kafbátaleitarvélar flugu miðvikudaginn 29. apríl yfir Barentshaf, Noregshaf og Norðursjó, það er milli Íslands og Noregs.

Í samræmi við áætlun NATO um skjót viðbrögð, Quick Reaction Alert (QRA), sendu Norðmenn tvær F-16 þotur frá Bodø-flugvelli í veg fyrir vélarnar fyrir norðan heimskautsbaug. Þegar sunnar dró komu orrustuþotur frá breska flughernum á vettvang og fylgdust með vélunum yfir Norðursjó.

Breski flugherinn lýsir miklum áhyggjum yfir að rússnesku flugmennirnir hafi ekki samband við evrópskar flugstjórnarmiðstöðvar. Rússnesku vélunum sé oft flogið inn á leiðir farþegavéla og verði þá að grípa til þess að breyta stefnu þeirra til að nægilegt bil sé milli flugvéla á lofti.

Venjulega er mikil flugumferð yfir Norðursjó, þúsundum farþegavéla er flogið til og frá breskum flugvöllum og einnig annars staðar frá í Evrópu. Þá fari flestar flugvélar á leið til og frá Norður-Ameríku um þetta svæði.

Breski flugherinn miðlar upplýsingum um ferðir rússnesku vélanna til borgaralegra flugstjórnarmiðstöðva. Með hliðsjón af þeim upplýsingum er unnt að breyta flugleiðum farþegavéla til að forða hættuástandi.

Þegar rússnesku Tu-142-vélunum var flogið norður að nýju var þeim fylgt eftir af norskum F-35-orrustuþotum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur ekki gefið neitt út um ferðir þessara tveggja véla. Í fyrri viku sögðu breskir fjölmiðlar frá því að breski flotinn væri í eltingaleik við rússneska kafbáta á Norður-Atlantshafi.

Í fréttum hefur komið fram að nýjasti fjölhæfi kafbátur Rússa, Kazan, sé nú á sveimi í Norður-Atlantshafi í fylgd nokkurra kafbáta af Akula-gerð úr rússneska Norðurflotanum.

Kazan er annar kafbáturinn af fjórðu kynslóð Yasen-kafbáta sem rússneski flotinn heldur úti, hann hefur ekki formlega verið afhentur Norðurflotanum heldur er hann á tilraunasiglingu til að reyna vopnakerfi og sjóhæfni.

Breski flotinn er sagður nýta kafbáta af Astute-gerð með aðstoð kafbátaleitarskipa af Trafalgar-gerð til að finna og elta rússnesku kafbátana.

Skömmu áður en Tu-142-vélarnar voru yfir Noregshafi var tveimur rússneskum Tu-160 langdrægum sprengjuvélum flogið til verkefna yfir Eystrasalti, sagði í frétt varnarmálaráðuneytisins í Moskvu. Á leið vélanna skiptust orrustuþotur frá Finnlandi, Danmörku, Póllandi og Svíþjóð á að fylgjast með þeim.

Fyrr í þessari viku voru tvær rússneskar Tu-22M3-sprengjuvélar frá Olenja-flugherstöðinni á Kólaskaga við störf undan strönd Norður-Noregs. Norskar F-16 orrustuþotur fylgdu vélunum hluta af ferð þeirra sem tók fjórar klukkustundir yfir Barents- og Noregshafi.

 

Heimild: BarentsObserver.

 

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …