
Bandarískar orrustuþotur flugu miðvikudaginn 10. júní tvisvar í veg fyrir rússneskar sprengjuvélar undan strönd Alaska segir í tilkynningu frá Loftvarnaherstjórn Norður-Ameríku (NORAD) 10. júní.
Í tilkynningunni segir að bandarískar F-22 Raptors hafi snemma miðvikudaginn 10. júní flogið í veg fyrir rússneska flugsveit í innan við 20 sjómílna fjarlægð frá strönd Alaska.
Í flugsveitinni voru tvær TU-95-sprengjuvélar, tvær SU-35 orrustuþotur og A-50 njósna- og eftirlitsvél. Í seinni flugsveitinni voru tvær TU-95-sprengjuvélar og A-50-vél og voru þær næst Alaska í 32 sjómílna fjarlægð.
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði við RIA-fréttastofuna að vélarnar hefðu verið 11 stundir á lofti og hagað ferðum sínum í samræmi við alþjóðalög. NORAD segir að vélarnar hafi aldrei farið inn í lofthelgi Bandaríkjanna heldur verið í alþjóðlegri lofthelgi.
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði 29. maí að rússneskar hervélar hefðu flogið í veg fyrir tvær bandarískar B-1B-sprengjuvélar á flugi yfir Svartahafi.
Í mars flugu bandarískar og kanadískar vélar í veg fyrir tvær rússneskar orrustuþotur sem fóru yfir Beaufort-haf skammt frá strönd Alaska.