Home / Fréttir / Rússneskar loftvarnaflaugar við norsku landamærin

Rússneskar loftvarnaflaugar við norsku landamærin

Skotpallar rússnesku flauganna við Noreg.
Skotpallar rússnesku flauganna við Noreg.

Nýjar rússneskar loftvarna-stýriflaugar af Tor-M2DT-gerð hafa formlega verið afhentar rússneska Norðurflotanum. Þær eru hluti vélaherdeilda hans í Petsamo rétt austan við norsku landamærin á Kólaskaga,

Um er að ræða hreyfanlega skotpalla á aflmiklum beltavögnum sem þola akstur í allt að 50° frosti. Unnið hefur verið að því að stofna þessa stýriflaugasveit á þessum stað síðan nú í ágúst og formlega tók sveitin til starfa á tækjum sínum fyrir fáeinum dögum.

Gerðar voru tilraunir með Tor-M2DT-flaugarnar fyrr á árinu á Novaja Zemlja en í nágrenni Noregs á Kólaskaga komu þær í júlí 2019.

Petsamó-dalurinn á Kólaskaga er nálægt landamærum Noregs og Finnlands. Aðeins eru um 10 km frá herstöðvum Rússa þar að landamærum Noregs.

Í innan við 100 km frá Petsamó er norska Globus-ratsjárkerfið í bænum Vardø. Þaðan er fylgst með ferðum rússneskra vígtóla á lofti og sjó.

Í tilynningu Norðurflotans segir að með Tor-M2DT-flaugunum sé ætlunin að tryggja loftrýmisöryggi og varnir loftrýmisins.

Tor-M2DT er afbrigði Tor-kerfisins sem kom fyrst til sögunnar seint á níunda áratugnum. Flaugarnar eru á torfæruvögnum af DT-30PM-gerð og með kerfinu má greina allt að 40 skotmörk samtímis á lofti og elta uppi og ná til allt að fjögurra þeirra samtímis í allt að 12 km fjarlægð og í allt að 10 km hæð. Á hverjum vagni eru 16 flaugar og má skjóta þeim þegar skotpallurinn er á ferð.

Þetta er ekki eina nýja skotkerfið sem nýlega hefur verið sett upp í nágrenni norsku landamæranna. Í júlí 2019 skýrðist endanlega að Bal-strandflaugakerfið (SSC-kerfið eða Sennight í skrám NATO) hefði fengið fast aðsetur á Sredníj-skaga á strönd Barentshafs.

Talið er að efnt verði til skotæfinga með Bal-flaugunum í æfingum Norðurflotans á þessum vetri. Kerfinu er einkum ætlað að granda skipum en flaugunum má einnig beita gegn skotmörkum á landi.

 

Heimild Barents Observer.

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …