Home / Fréttir / Rússneskar loftvarnaflaugar fluttar til Tyrklands

Rússneskar loftvarnaflaugar fluttar til Tyrklands

S-400 skotpallur settur um borð í rússneska flutningavél.
S-400 skotpallur settur um borð í rússneska flutningavél.

Fyrstu hlutar rússnesks eldflaugakerfis til loftvarna bárust til Tyrklands föstudaginn 12. júlí. Um er að ræða svonefnt S-400 loftvarnakerfi sem nota má til að finna flugvélar og önnur skotmörk. Bandaríkjastjórn leggst eindregið gegn þessum vopnakaupum Tyrkja og þau hafa skapað spennu innan NATO þar sem Bandaríkjamenn og Tyrkir eru meðal aðildarþjóða.

Eldflaugarkerfið verður sett upp af rússneskum verkfræðingum og innan NATO óttast Bandaríkjamenn og fleiri að þá fái Rússar færi á að afla sér upplýsinga um bandarísk vopnakerfi, upplýsingar sem fara eigi leynt af öryggisástæðum.

Einmitt þess vegna hefur Bandaríkjastjórn þegar gert ráðstafanir til að hindra að Tyrkir fái afhentar nýjar, torséðar orrustuþotur af gerðinni F-35. Hefur þjálfun tyrkneskra flugmanna verið hætt en þeir höfðu komið til Bandaríkjanna til að læra að fljúga þotunum.

Afstaða Bandaríkjastjórnar á sér þó dýpri rætur en þetta. Deilan við Tyrki vegna S-400 flauganna kann að hrekja Bandaríkjamenn frá Incirlik-flugherstöðinni sem skiptir þá miklu vegna hernaðarlegrar stöðu á svæðinu, ekki síst vegna átakanna í Sýrlandi. Talið er að í stöðinni séu einnig geymslur skammdrægra kjarnorkuvopna sem urðu þar innlyksa eftir að kalda stríðinu lauk.

Herfræðingar segja að fyrir Vladimir Pútin Rússlandsforseta vaki að ýta undir sundrung innan NATO með vopnasölunni til Tyrklands. Þá sýni viðskiptin að Tyrkir hafi tekið stefnu frá vestri og halli sér meira til austurs. Pólitískar afleiðingar þess geti enginn metið á þessari stundu.

Lega Tyrklands á mörkum Evrópu og Asíu og með sameiginleg landamæri við Rússland við Svartahaf hefur löngum skipt NATO miklu og skapað Tyrkjum stöðu innan bandalagsins sem þeir hafa oft nýtt sér á umdeildan hátt.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …