Home / Fréttir / Rússneskar korvettur fylgjast með Trident Juncture

Rússneskar korvettur fylgjast með Trident Juncture

 

Rússneska korvettan Soobrazitelníj.
Rússneska korvettan Soobrazitelníj.

Tvær korvettur úr Eystrasaltsflota Rússa eru komnar út á Norður-Atlantshaf í sama mund og NATO-varnaræfingin Trident Juncture hefst.

Soobrazitelníj og Stoikij og koma frá Baltiiskij-flotastöðinni við Eystrasalt. Í fylgd með þeim er dráttarbáturinn Konetskíj og 5.000 lesta olíuskip, Kola.

Rússneska flotastjórnin segir að korvetturnar séu þarna til að „sýna sig og fána heilags Andrésar [gunnfána rússneska flotans] á ýmsum stöðum á Atlantshafi“.

Um borð eru KA-27PS (Helix-D) þyrlur og sérþjálfaðir landgönguliðar.

Efnt verður til margvíslegra æfinga, þar á meðal lofvarna- og kafbátavarnaæfinga. Þyrlurnar æfa leit að óvinveittum kafbátum, eftirlit með ferðum herskipa og leit og björgun.

Skipin eru af Steregusjitsí-gerð, nýrri gerð korvetta sem Eystrasaltsflotinn fékk árin 2008 og 2014. Þetta er ekki fyrsta ferð skipa af þessari gerð út á Norður-Atlantshaf. Í júní í ár sigldi Stoikíj með systurskipi sínu Boikíj um 3.000 sjómílur á þessum slóðum.

Flotaæfingasvæði Trident Juncture.
Flotaæfingasvæði Trident Juncture.

Rússar kalla skip af þessari gerð korvettur en innan NATO er litið á þau sem freigátur. Sex svona skip hafa verið smíðuð en sjö eru í smíðum. Þau ná 27 hnúta hraða, 99 menn eru í áhöfn og drægni þeirra er 4.000 mílur. Skipin eru búin fallbyssum, háhraða stýriflaugum gegn skipum, meðaldrægum loftvarnaflaugum og tundurskeytum.

Á leið skipanna norður með strönd Noregs verður náið fylgst með þeim frá skipum og flugvélum herja NATO-ríkjanna sem nú æfa á þessum slóðum undir merkjum Trident Juncture.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …