Home / Fréttir / Rússneskar kjarnorku-sprengjuvélar fluttar norður á Kólaskaga – vissulega skilaboð segir sérfræðingur

Rússneskar kjarnorku-sprengjuvélar fluttar norður á Kólaskaga – vissulega skilaboð segir sérfræðingur

Langdræg rússnesk sprengjuvél. Tu-160, hefur sig á loft.

Nýlegar gervihnattarmyndir sýna að Rússar hafa flutt fjórar Tu-160 og þrjár Tu-95 langdrægar sprengjuvélar norður til Olenegorsk flugherstöðvarinnar á Kólaskaga fyrir austan landamæri Noregs.

Ísraelska fyrirtækið ImageSat International á gervihnettina sem notaðir voru til myndatökunnar í ágúst og september. Voru myndirnar birtar í fyrsta sinn í blaðinu Jerusalem Post segir á norsku vefsíðunni Barents Observer mánudaginn 3. október.

Þar segir að flugherstöðin sé nálægt bænum Olenegorsk-2 um klukkutíma akstur suður af Múrmansk. Þar er venjulega floti Tu-22 sprengjuvéla og MiG-31 ofurhraðfleygra orrustuvéla. Þarna er lengsta flugbrautin þegar litið er til flugvallanna fjögurra á Kólaskaga sem herinn notar. Af þessum sökum geta stóru sprengjuvélarnar sem bera kjarnavopn, Tu-95 og Tu-160, nýtt sér völlinn.

Flugbrautin er 3.500 m löng og ein af helstu kjarnaodda-geymslum Rússa, Bolshoje Ramozero, er þarna í nágrenninu.

Fyrsta gervihnattarmyndin sem sýnir fjórar Tu-160 flugvélar var tekinn 21. ágúst 2022, fáeinum dögum eftir að rússneski Norðurflotinn hóf mikla flotaæfingu á Barentsahafi.

Thomas Nilsen, ritstjóri Barents Observer, bendir á að langdrægu sprengjuvélarnar hafi flutt sig 1.000 km til norðurs frá Engel flugherstöðinni í Saratov á sama tíma og Vladimir Pútin Rússlandsforseti hóti með tali um kjarnavopn.

Katarzjína Zjísk, prófessor í alþjóðasamskiptum við Norsku utanríkismálastofnunina, NUPI, segir við Barents Observer að „vissulega felist í því skilaboð“ að senda svo stórar sprengjuvélar til norðurs.

Þetta er „ekki endilega tengt stríðinu í Úkraínu“ segir hún og minnir á hve norðurslóðir skipti miklu í kjarnorku-fælingarstefnu Rússa. Tu-95 og Tu-160 hófu flug utan lofthelgi Rússlands árið 2008 eftir hlé á slíku flugi í tæpa tvo áratugi að loknu kalda stríðinu.

Zjísk prófessor segir að langdrægar sprengjuvélar hafi áður verið sendar til viðveru í Olenegorsk flugherstöðinni.

„Í sjálfu sér sýnist þetta ekki óvenjuleg aðgerð. Það verður hins vegar að skoða hana í samhengi við hernaðarlegu og stjórnmálalegu stöðuna, einmitt núna vekur hún margar spurningar, ekki síst vegna stigvaxandi hótana Pútins um hugsanlega beitingu kjarnavopna þegar Úkraínumenn halda áfram sókn sinni,“ segir Katarzjína Zjísk.

Þess ber þó að gæta sérstaklega að hennar sögn að ekkert óvenjulegt virðist tengjast flutningi vélanna og ekki eru gefnar út neinar yfirlýsingar í tilefni af ferðum þeirra.

„Breytist ekki neitt lít ég á þetta sem venjubundna athafnasemi, reist á þeim takmörkuðu upplýsingum sem við höfum á þessari stundu,“ segir Zjísk.

Viðbragðstími til fyrirflugs á alþjóðlegu flugsvæði styttist hjá NATO flugherjum þegar rússneskar sprengjuvélar taka á loft á Kólaskaga miðað við að þeim sé fyrst flogið í norður frá Engels flugherstöðinni fyrir suðaustan Moskvu.

Sé rússnesku vélunum flogið yfir Barentshaf og Noregshaf í átt að Vestur-Evrópu fara F-35 orrustuþotur frá Evenes-flugvelli í Norður-Noregi venjulega í veg fyrir þær fyrir utan lofthelgi Noregs í samræmi við viðbragskerfi NATO, Quick Reaction Alert (QRA).

Loftrýmisgæsla frá Keflavíkurflugvelli er einnig framkvæmd í samræmi við það kerfi.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …