Home / Fréttir / Rússneskar kafbátaleitarvélar í nágrenni Íslands

Rússneskar kafbátaleitarvélar í nágrenni Íslands

Rússnesk Tu 142 vél.
Rússnesk Tu 142 vél.

Í fyrri viku flugu norskar og breskar orrustuþotur tvisvar sinnum í veg fyrir rússneskar kafbátaleitarvélar á æfingaflugi yfir Noregshafi. Þetta segir í frétt sem Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar BarentsObserver, birti á síðunni laugardaginn 29. febrúar.

Um var að ræða tvær Tu-142 vélar sem flugu suður með Noregi utan norskrar lofthelgi miðvikudaginn 26. og fimmtudaginn 27. febrúar.

Talsmaður norska hersins, Brynjar Stordal majór, sagði við vefsíðuna að rússneskar vélar af þessari gerð æfðu „næsta reglulega á hafsvæðinu fyrir norðan Noreg,“ en að sögn hans er ekki „algengt að þær fljúgi eins langt til suðurs eins og þær gerðu í þessari viku“.

Vélarnar flugu út úr Barentshafi fyrir norðan Kólaskaga, héldu vestur fyrir Knöskanes (Norðurhöfða) á Noregi áður en þær héldu til suðurs í GIUK-hliðið, það er svæðið frá Grænlandi um Ísland til Noregs. Í frétt BarentsObserver segir:

„Að brjótast í gegnum GIUK-hliðið í hugsanlegum átökum yrði mikilvægt fyrir rússneska flotann til að tryggja brjóstvörn fyrir langdrægu kjarnorkukafbátana sem sveima um Barentshaf og Norður-Íshaf.“

Norskar F-16 þotur flugu í veg fyrir rússnesku vélarnar frá flugvellinum í Bodø og síðan komu breskar Typhoon-þotur frá Lossiemouth í Skotlandi,

Flugmenn rússnesku flugvélanna tveggja sneru aftur í norður einhvers staðar milli Noregs og Íslands áður en bresku þoturnar náðu til þeirra.

Í frétt frá höfuðstöðvum Norðurflotans í Severomorsk á Kólaskaga sagði að flug sprengjuvélanna tveggja hefði tekið „meira en en 12 tíma“.

Tu-142 vélar Norðurflotans eru flotagerð af langdrægu Tu-95 sprengjuvélunum. Meginverkefni vélanna er að leita að kafbátum frá NATO-ríkjum og stunda rafeindanjósnir. Þá gegna vélarnir einnig mikilvægu hlutverki við leit og björgun á norðurslóðum.

Mánudaginn 2. mars hefst fjölþjóða heræfingin Cold Response í Norður-Noregi með þátttöku rúmlega 15.000 hermanna frá níu löndum. Æfingasvæðið nær frá Narvík til Porsangermoen á Finnmörku, mestur þunginn verður í Troms-fylki. Æft verður til 18. mars.

Í frétt BarentsObserver er þess ekki getið að um 150 liðsmenn norska flughersins með fjórar F-35 orrustuþotur eru við loftrýmisgæslu á Íslandi frá 20. febrúar fram undir lok mars. Loftrýmisgæslan er í samræmi við loftrýmisáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland. Flugsveitin er með aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Landhelgisgæsla Íslands annast verkefnið af hálfu íslenskra stjórnvalda í samvinnu við ISAVIA.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …