Home / Fréttir / Rússneskar „falsfréttir“ – skapa þjóðum okkar hættu

Rússneskar „falsfréttir“ – skapa þjóðum okkar hættu

Claus Hjort Frederiksen og Peter Hultqvist.
Claus Hjort Frederiksen og Peter Hultqvist.

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, og Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Danmerkur, birtu sameiginlega grein í svænska dagblaðinu Aftonbladet, 30. ágúst 2017. Hún birtist hér í lauslegri þýðingu.

 

Samskipti Svía og Dana hafa orðið sífellt nánari og má þakka það Eyrarsundsbrúnni. Þetta á þó ekki aðeins við um þá sem búa og starfa við Eyrarsund. Þegar ástand öryggismála í nágrenni okkar versnar vegna hervæðingar Rússa beinist athygli einnig að varnarsamstarfinu. Við erum sannfærðir um að með því að vinna saman geti þjóðir okkar stuðlað að stöðugleika og frelsi á Eystrasaltssvæðinu.

Áður fyrr börðust Svíar og Danir hvor við annan en það er hluti af sögunni og nú á tímum eru samskipti okkar vinsamleg. Hvað sem líður aðild Dana að NATO og stöðu Svía utan hernaðarbandalaga er sameiginlegt verkefni okkar að reisa trúverðugan þröskuld gegn enn meiri óróa í nágrenni okkar.

Þjóðir okkar beggja vinna að því að efla eigin varnir og styrkja sameiginlegan hernaðarmátt. Svíar hafa aukið útgjöld sín til varnarmála umtalsvert og aðeins eru fáar vikur liðnar síðan þetta var gert í þriðja sinn með samstöðu margra flokka í tíð núverandi ríkisstjórnar. Svíar hafa einnig fjölgað í herafla sínum á Gotlandi og innleitt herskyldu að nýju. Danska ríkisstjórnin stefnir að því auka útgjöld sín til varnarmála umtalsvert nú í haust.

Þegar við komum til saman til fundar í Stokkhólmi fimmtudaginn 31. ágúst er það ekki aðeins til að skiptast á hátíðarræðum. Við ætlum að vinna áfram að framkvæmd samkomulagsins sem við undirrituðum á árinu 2016 og þeim sérgreindu verkefnum sem miða að því að auka sameiginlegt öryggi okkar nú þegar öryggisástandið versnar.

Athafnir skipta meira máli í samstarfi okkar en ræðuhöld. Langt er síðan stofnað var til norræns varnarsamstarfs (Nordefco) með þjóðum okkar og Norðmönnum, Finnum og Íslendingum, þar hefur verið gripið til margra aðgerða og ráðstafana. Má þar til dæmis nefna viðleitni til hagkvæmni með sameiginlegum innkaupum. Stofnað er til sameiginlegra æfinga sem hækka þröskuldinn gagnvart öðrum og sýna að við getum starfað saman komi til hættuástands.

Öruggu sambandi hefur nú verið komið á milli varnarmálaráðuneyta Norðurlandanna. Nú er einnig unnið að því að auðvelda aðgang að yfirráðasvæði hver annars og miðla ratsjárgögnum milli okkar innan Nordefco á friðartímum og síðan einnig á hættu- eða stríðstímum.

Svíar og Finnar rituðu í júní 2017 undir samstarfssamning um Joint Expeditionary Force (JEF) undir stjórn Breta. Danir eiga nú þegar aðild að þessu samstarfi ásamt Norðmönnum, Eystrasaltsþjóðunum og Hollendingum. Brátt verður unnt að beita JEF í mannúðaraðstoð á hættutímum, til friðargæslu og jafnvel til stríðsaðgerða. Það er undir hverri þjóð komið hvenær hún tekur þátt í JEF og með hvaða hætti eftir að liðið kemur að fullu til starfa á árinu 2018. Svíar leggja mikla þekkingu og herstyrk til samstarfsins og stuðla þannig að sameiginlegu öryggi á Eystrasaltssvæðinu.

Bæði Svíar og Danir eru aðilar að ESB og vilja treysta samstöðu innan sambandsins sem hefur einnig þýðingu í öryggismálum meðal annars með refsiaðgerðunum gegn Rússum. Það byrjaði í Georgíu árið 2008, síðan kom innlimun Krím árið 2014, viðvarandi átök í Úkraínu og hervæðingin á vestur herstjórnarsvæði Rússlands sem auk þess er í næsta nágrenni Eystrasaltsríkjanna.

Rússar hafa hvað eftir annað hagað sér á þann átt að skapar óvissu. Þar nægir að nefna hervæðinguna og framgöngu þeirra en einnig það sem kallað er blandaður hernaður og nær til alls kyns netárása, upplýsingafölsunar og miðlun falskra frétta sem geta stuðlað að öryggisleysi í samfélaginu.

Þegar við lendum í erfiðleikum með að greina á milli falskra frétta og upplýsingafölsunar og þess sem er satt og rétt ýtir það aðeins undir öryggisleysi. Þjóðir okkar hafa báðar orðið fyrir slíku áreiti og þess vegna viljum efla varnir samfélaga okkar einnig á þessu sviði. Við munum auka samstarf okkar til þess.

Til að styrkja öryggisþröskuldinn í okkar hluta Evrópu þarf aukinn herstyrk en einnig er nauðsynlegt að leggja rækt við diplómatíu og samvinnu. Þetta eru tvær hliðar á sömu mynt.

Innan skamms efna Svíar til varnaræfingarinnar Aurora 17. Í samræmi við Vínarsamþykktina og reglur um gagnsæi bjóða Svíar eftirlitsmönnum frá öðrum löndum að fylgjast með æfingunni. Í Aurora 17 er sett á svið skyndiárás á Svíþjóð. Mjög litlar líkur eru á að þetta gerist en með æfingunni gefst færi á að takast á við margvísleg hættuleg tilvik og það í samvinnu við aðra. Aurora 17 er viðamesta heræfingin í rúm 20 ár og alls taka 19.000 manns þátt í henni. Svíar hafa meðal annars boðið Dönum, Norðmönnum, Finnum, Eystrasaltsþjóðunum og Bandaríkjamönnum aðild að æfingunni.

Ekki er nauðsynlegt að allir séu sammála stefnunni sem við fylgjum. Þannig er það og á að vera þar sem lýðræði ríkir. Við verðum hins vegar að svara þeim sem stunda upplýsingafalsanir vegna Aurora 17 æfingarinnar og annars svo að ekki sé alið á ranghugmyndum og þeim dreift. Kjörnir þingmenn eins og við verða að taka sig á þegar kemur að því að svara undirróðri.

Margt mælir með öflugra samstarfi Svía og Dana. Við deilum reynslu á mörgum sviðum eins og birtist í samstarfssamningnum frá 2016. Það er eðlilegt að við eflum samstarf okkar á Eystrasalti.

Samskipti þjóða okkar einkennast af glaðværð og vinsemd en einnig djúpri alvöru. Við þurfum og viljum efla samstarf Svía og Dana á sviði öryggismála. Okkur er skylt að gera allt í okkar valdi til að tryggja borgurum landa okkar frelsi, öryggi og opin samfélög. Í okkar huga snýst þetta ekki aðeins um óskina um öflugar varnir heldur einnig vilja okka til að efla samstarfið.

 

P

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …