
Á áróðurssíðum rússneskra stjórnvalda er hampað mjög þingmönnum í einstökum ESB- og NATO-löndum sem rísa gegn ákvörðunum um viðskiptaþvinganir á Rússa. Á vefsíðunni sputniknews.com mátti laugardaginn 1. ágúst sjá vitnað af velþóknun til gagnrýni sem Nadine Morano, fyrrv. ráðherra og núv. ESB-þingmaður UMP-mið-hægriflokksins lét falla á fésbókarsíðu sinni föstudaginn 31. júlí um stefnu François Hollandes Frakklandsforseta gagnvart Rússum, hún væri reist á „gagnslausum“ refsiaðgerðum.
Þingmaðurinn sakaði Frakklandsforseta um að „skaða Frakkland á afdráttarlausan hátt“. Hinar „gagnslausu“ refsiaðgerðir leiddu til „viðskiptabanns Rússa“ á franska framleiðendur. Það hefðu verið mistök hjá Hollande að koma ekki á góðu sambandi að nýju við Rússa og leysa ágreininginn um Mistral-þyrlumóðurskipin tvö.
Morano stofnaði í júní fjölþjóðlegan vinnuhóp á ESB-þinginu til að stuðla að efnislegum viðræðum við Rússa. Ber hann heitið Nýjar samræður við Rússa og segir í frétt sputniknews.com að 15 þingmenn séu í hópnum frá Frakklandi, Ítalíu, Bretlandi, Þýskalandi og Portúgal.
Rússar og Frakkar rituðu undir 1,2 milljarða evru samning árið 2011 um að Frakkar mundu smíða tvö Mistral-þyrlumóðurskip fyrir Rússa. Í nóvember 2014 riftu Frakkar samningnum vegna þess að þeir töldu Rússa eiga aðild að hernaðaraðgerðum í Úkraínu.
Fyrir fáeinum dögum sagði Vladimir Kozhin, ráðgjafi Rússlandsforseta um hertæknilega samvinnu, að Rússar og Frakkar hefðu samið um uppgjör vegna samningsslitanna. Frakklandsforseti sagði föstudaginn 31. júlí að ekki hefði verið samið neitt um þetta uppgjör milli landanna.