
Sérfræðingar í innri öryggismálum Rússlands segja að skoða beri nýja öryggisliðsaflann sem settur hefur verið á fót sem lið í undirbúningi vegna þingkosninga í landinu í september. Liðið hefur hlotið nafnið Rússneska varðliðið og lýtur yfirstjórn Viktors Zolotovs sem var einkalífvörður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í 13 ár. Pútín stofnaði varðliðið fyrr í þessum mánuði með forsetaúrskurði.
Löng grein birtist um þessa uppstokkun á innri öryggismálum Rússlands í The Wall Street Journal (WSJ) þriðjudaginn 26. apríl. Minnt er á að Pútín hafi sagt að beita ætti liðinu til að herða eftirlit með vopnasölu innan Rússlands og einfalda boðleiðir í baráttunni við hryðjuverkamenn.
Sérfræðingar minna á að eftir þingkosningarnar í Rússlandi árið 2011 hafi komið til fjöldamótmæla í landinu vegna ásakana um að stjórnvöld hefðu haft rangt við í kosningunum.
„Þetta snýst í raun allt um komandi kosningar og hugsanleg fjöldamótmæli,“ sagði Boris Volodarskíj, fyrrverandi liðsmaður í njósnadeild hersins.
Til þessa hefur verið erfitt að greina á milli lögregluliða, njósnasveita og herþjálfaðra lögreglusveita sem bera ábyrgð á innra öryggi landsins. Á vegum innanríkisráðuneytisins má finna vélaherdeildir, sérþjálfaðar gagnhryðjuverkasveitir og óeirðalögreglu.
Embættismenn segja að með því að endurskipuleggja þetta lið megi spara opinber útgjöld þegar efnahagur Rússlands er hinn versti síðan í greiðsluþroti landsins árið 1998.
Í forsetaúrskurðinum um Rússneska varðliðið segir að hlutverk þess sé gæta almannareglu, tryggja öryggi almennings og að regla haldist í neyðarástandi“.
Zolotov yfirmaður Rússneska varðliðsins er hollur Pútín. Honum var fyrst falið að gæta öryggis Pútíns þegar hann var ekki annað en ungur skriffinnur í borgarstjóraskrifstofunni í St. Pétursborg. Síðan hefur Zolotov orðið kunnur sem svartklæddi maðurinn með svörtu sólgleraugun.
Snemma á tíunda áratugnum var Zolotov í hópi þeirra sem gættu til dæmis öryggis Boris Jeltsíns forseta. Frá því að Pútín varð forseti hefur Zolotov þanið út öryggissveitina innan Kremlarmúra. Í lífvarðasveit forsetans eru nú 400 manns búnir fullkomnustu vopnum.
Í WSJ segir að hinar miklu breytingar á innra öryggiskerfi Rússlands beri einnig vott um ótta embættismanna þar við að ástandið í Rússlandi verði svipað og í Úkraínu þar sem stjórninni var velt í mótmælum snemma árs 2014. Valdheimildir Rússneska varðliðsins verða ákveðnar með lögum en tillagan um þær er á þann veg að þær verða mun meiri en lögreglan hefur nú í Moskvu og St. Pétursborg. Varðliðarnir geta skotið án viðvörunar, þeir geta notað stuðbyssur sem ekki eru banvænar, gripið til handjárna og táragass án þess að gæta að sömu reglum og lögreglumenn almennt.
Í fastaliði Rússneska varðliðsins í Moskvu verða 20.000 manns. Rúmlega 100.000 manns tóku þátt í mótmælaaðgerðum á götum Moskvu eftir ásakanir um kosningasvindl árið 2011. Ólíklegt er talið að hið sama gerist eftir kosningarnar í september nk. Fyrir utan aukna trú á yfirvöldunum eftir innlimun Krímskaga og hernaðinn í Sýrlandi er talið að ótti við Rússneska varðliðið fæli fólk frá að fjölmenna til mótmæla.