Home / Fréttir / Rússneska utanríkisráðuneytið ræðst á norsk stjórnvöld

Rússneska utanríkisráðuneytið ræðst á norsk stjórnvöld

Maria Zakharova
Maria Zakharova

Á norsku vefsíðunni Barents Observer birtist mánudaginn 23. nóvember frásögn eftir Atle Staalesen af vikulegum blaðamannafundi sem Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, efndi að þessu sinni til fimmtudaginn 19. nóvember.

Á fundinum réðst Maria Zakharova á norsk stjórnvöld og sagði þau fylgja and-rússneskri stefnu og öllum tilraunum stjórnvalda í Moskvu til að efna til friðsamlegra viðræðna hefði verið skipulega hafnað.

Tilefni þessara orða var spurning um viðveru bandarískra kafbáta í Norður-Noregi. Zakharova svaraði á þann veg að Noregur væri að verða „fótfesta NATO á norðurslóðum“ og þetta væri liður í hernaðarmannvirkjagerð NATO við landamæri Rússlands.

Upplýsingafulltrúinn lét þess hins vegar sérstaklega getið að norska þjóðin væri ekki and-rússnesk heldur ríkisstjórn hennar. Stundaðar væru blekkingar til að telja Norðmönnum trú um að líta bæri á Rússa sem óvini. Því væri skipulega haldið frá Norðmönnum sem Rússar hefðu að bjóða. Allt væri gert til að setja allt slíkt í rangt samhengi og beitt væri einkennilegum rökum um tilgang aðgerða Rússa til að gefa fólki ranga mynd af því sem fyrir þeim vekti. Það sem Norðmenn læsu í blöðum sínum væri fjarri því að vera satt.

Atle Staalesen segir að Maria Zakharova sé þekkt fyrir harkaleg ummæli um mikilvæg alþjóðamál og áður hafi hún ráðist á norsk stjórnvöld fyrir norðurslóðastefnu þeirra, þar á meðal varðandi Svalbarða.

Staalesen minnir á áralanga gagnrýni Rússa á NATO-aðild Norðmanna en rússnesk yfirvöld hafi jafnframt lagt áherslu á að góð tvíhliða samskipti væru á milli þjóðanna við norðurlandamæri þeirra og íbúar Norður-Noregs sýndu Rússum meiri „vinsemd“ en þeir sem búa sunnar í landinu.

Í lok frásagnar Barents Observer segir að það sé ótvíræður ógnartónn í yfirlýsingum rússneska utanríkisráðuneytisins. Maria Zakharova segi að Norðmenn geti ekki lengur fylgt „tveggja brauta stefnu“, annars vegar eiga samvinnu við Rússa á vissum sviðum en hins vegar beita „eyðileggjandi aðferðum“ til að halda Rússum í skefjum.

Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins árétti að Rússar yrðu „að taka mið af aðgerðum Norðmanna þegar þeir leggi grunn að ráðstöfunum til að styrkja þjóðaröryggi sitt“.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …