Home / Fréttir / Rússneska þjóðarbúið „gjörsamlega lamað“

Rússneska þjóðarbúið „gjörsamlega lamað“

Refsiaðgerðir Vesturlanda hafa „gjörsamlega lamað“ rússneska þjóðarbúið og leitt til fjölda-brottfarar alþjóðlegra fyrirtækja segir í nýrri skýrslu sérfræðinga við Yale-háskóla í Bandaríkjunum.

Höfundar skýrslunnar segja hana reista á „fyrstu heildargreiningu“ á stöðu rússneskra efnahagsmála frá upphafi innrásarinnar í Úkraínu, í ljós komi að á mörgum sviðum hafi Rússar orðið fyrir gjöreyðandi höggi.

Skýrslan er samin af sérfræðingum við Yale School of Management. Þeir segja að frá Rússlandi hafi horfið fyrirtæki sem standi að 40% VLF í landinu og þar með hafi þurrkast út nær öll erlend fjárfesting sem þangað hafi borist undanfarna þrjá áratugi. Þá hafi ástandið orðið enn verra vegna áður óþekkts flótta fjármagns og fólks.

Rúmlega 1.000 fyrirtæki hafa hætt starfsemi sinni í Rússlandi eða yfirgefið landið fyrir fullt og allt frá upphafi innrásarinnar í Úkraínu, starfsemi þeirra spannar allt frá tísku til fjármála.

Yale-skýrslan var birt 20. júlí 2022 og þar segir að alþjóðlegu refsiaðgerðirnar hafi spillt fyrir útflutningi Rússa á „óafturkallanlegan hátt“ og innflutningur til landsins hafi „að mestu hrunið“.

Þetta hafi leitt til „víðtæks birgðaskorts“ innan Rússlands og til stöðvunar á framleiðslu innan lands enda sé hún á öllum sviðum háð innflutningi.

„Þrátt fyrir hugaróra Pútins um sjálfsþurftarbúskap og heima-varning í stað innflutts hefur heima-framleiðsla algjörlega stöðvast og ræður ekki við að koma í stað þeirra viðskipta sem horfin eru, hvorki með vörur né mannafla; eftir útþurrkun á nýsköpun og framleiðslu á heimavelli hefur verðlag rokið upp úr öllu valdi ásamt kvíða neytenda,“ segir Yale-hópurinn.

Forysta Rússa sem útflytjenda á hrávöru hefur einnig orðið fyrir höggi að mati sérfræðinganna.

„Strategísk staða Rússa sem útflytjenda hrávöru hefur beðið óafturkallanlegan hnekki, nú standa þeir að viðskiptum í veikri stöðu eftir að hafa tapað helstu mörkuðum sínum, og þeirra bíða erfið verkefni við að framkvæma „umsnúning til Asíu“ með óumbreytanlega útflutningsvöru eins og gas í leiðslum,“ segir í skýrslunni.

Tekjur af orkusölu nema 60% af tekjum rússneska ríkisins sem sýnir að hvergi í heiminum er nokkurt ríki eins háð hrávörusölu.

Skýrsluhöfundarnir fimm benda á að niðurstöður þeirra stangist á við vaxandi fullyrðingar um að refsiaðgerðirnar skaði þjóðirnar í vestri meira en Rússa. Þeir segja:

„Þegar fimmti mánuður innrásarstríðs Rússa er að hefjast hefur sú almenna skoðun birst að einhugur þjóða heims um andstöðu gegn Rússum hafi einhvern veginn þróast í „efnahagslegt þreytustríð sem sé Vestrinu dýrkeypt“ vegna svonefndrar „seiglu“ og jafnvel „hagsældar“ í rússneskum þjóðarbúskap“.

„Þetta eru einfaldlega ósannindi,“ segir í skýrslunni.

Frá því að Vestrið greip til refsiaðgerðanna gegn Rússum í febrúar hefur verð á orku og matvælum hækkað um heim allan.

Sumir sérfræðingar og stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa lýst áhyggjum vegna þessa og bent á að refsiaðgerðirnar hafi ekki nógu þung áhrif á Rússa til að réttlæta tjónið sem þær valda þeim sem settu refsireglurnar.

Yale-hópurinn fullyrðir að ein ástæða þess að skoðanir af þessu tagi heyrast sé að Kremlverjar „handvelji“ fréttir af efnahag Rússa „þeir strika út óhagstæðar stærðir en birta aðeins þær sem eru hagstæðari“.

Vitnað er til orða Vladimirs Pútins Rússlandsforseta sem í apríl sagði „efnahagslegu leiftursóknina“ að vestan hafa „mistekist“ og þess í stað leitt til „hnignunar efahagsins“ í vestri.

Skýrsluhöfundarnir Jeffrey Sonnenfeld, Steven Tian, Franek Sokolowski, Michal Wyrebkowski og Mateusz Kasprowicz segja í 118 bls. úttekt sinni að vestræn ríki verði að standa einhuga að framkvæmd refsiaðgerðanna og nota þær til að auka þrýsting á Rússa. Sé það gert geti ekkert bjargað Rússum frá þvi að verða efnahagslega máttvana.

Í skýrslunni kemur fram að enginn fjármálamarkaður í heimi standi verr að vígi en sá rússneski.

„Rússneskt efnahagslíf er að þrotum komið, sama hvaða kvarði er notaður eða hvert er litið, nú er ekki rétti tíminn [fyrir Vestrið] til að stíga á bremsurnar,“ segja skýrsluhöfundarnir.

 

Heimild: Euronews

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …