Home / Fréttir / Rússneska sendiráðið í Osló ræðst á norsku ríkisstjórnina

Rússneska sendiráðið í Osló ræðst á norsku ríkisstjórnina

Bandarískir landgönguliðar í Noregi.
Bandarískir landgönguliðar í Noregi.

Ákvörðun norskra yfirvalda um að leyfa bandarískum hermönnum að æfa og þjálfa á Værnes við flugvöllinn í Þrándheimi í eitt ár enn eykur spennu og vegur að stöðugleika á norðurslóðum segir rússneska sendiráðið í Osló.

Hörð gagnrýni sendiráðsins vegna æfinga bandarísku hermannanna í Norður-Þrændalögum birtist laugardaginn 24. júní í langri færslu á Facebook-síðu þess. Þar er fullyrt að viðvera bandarísku hermannanna brjóti gegn herstöðvastefnu Norðmanna þar sem segir að erlendur her skuli ekki hafa fasta viðveru á norsku landi á friðartímum.

„Þetta er ekki í samræmi við hefðir og góða sambúð nágranna og skapar óvissu í samstarfi við Norðmenn. Þetta kann einnig að auka spennu og draga úr stöðugleika á norðurslóðum,“ segir í yfirlýsingu sendiráðsins og einnig:

„Við lítum á þetta sem lið í hernaðarundirbúningi undir forystu Bandaríkjamanna sem hefur aukist ásamt and-rússneskri áróðurs-móðursýki.“

Norska ríkisstjórnin samdi við bandarísk stjórnvöld um að allt að 330 bandarískir landgönguliðar gætu skipst á að koma til æfinga og þjálfunar í Værnes á árinu 2017. Bandarísku hermennirnir komu til Værnes í janúar 2017. Þeir eru í um 1.500 km frá rússnesku landamærunum.

Norsk yfirvöld hafa jafnan tekið fram að ekki sé um fasta, varanlega viðveru að ræða. Miðvikudaginn 21. júní var skýrt frá því að ríkisstjórnin hefði framlengt samningin við Bandaríkjamenn út árið 2018. Utanríkis- og varnarmálanefndum stórþingsins var skýrt frá ákvörðuninni sama dag.

Norska fréttastofan NTB segir að norska ríkisstjórnin hafi í fyrstu óskað eftir að framlengja samninginn um þrjú ár en á fundi með þingnefndunum var skýrt frá að í þetta sinn yrði um að ræða framlengingu til eins árs.

Af hálfu norska varnarmálaráðuneytisins er bent á í frétt NTB að æfingar og þjálfun norskra bandamanna í Noregi séu meðal meginþáttanna í norskri öryggismálastefnu og það sé hverju sinni á valdi norskra yfirvalda að meta hvort erlend hernaðarumsvif falli að herstöðvastefnunni.

Með hliðsjón af þessu eigi Rússum ekki að koma neitt á óvart þótt bandamenn Norðmanna haldi úti herafla í Noregi og ástæðulaust sé fyrir Rússa að mótmæla æfingum og þjálfun hermanna frá bandalagsríkjum Norðmanna í Noregi.

Þegar fyrstu bandarísku hermennirnir komu til Noregs í janúar 2017 svaraði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, einnig gagnrýni Rússa.

„Þetta brýtur ekki gegn herstöðvastefnunni. Það hefur alltaf verið okkar skoðun að hingað komi erlendir hermenn til dvalar vegna æfinga og þjálfunar. Við viljum ekki fasta viðveru í erlendum herstöðvum,“ sagði hún við NTB.

Í yfirlýsingu rússneska sendiráðsins eru norskir forystumenn hers og stjórnmála sakaðir um „stöðuga áreitni í garð Rússa“ í málflutningi sínum. Varla sé unnt að líta þannig á að aukin áhersla Norðmanna á fjárveitingar til varnarmála sé einvörðungu í varnarskyni en ekki beint gegn Rússum.

Af hálfu sendiráðsins er einnig fullyrt að aðild Norðmanna í NATO-aðgerðinni

Enhanced Forward Presence „við landamæri okkar“ í Litháen og hugsanleg aðild Norðmanna að eldflaugavarnakerfi NATO hafi óhjákvæmilega áhrif á samband Norðmanna og Rússa.

„Skortur á viðunandi viðræðum milli stjórnenda herja okkar þröngva okkur til að taka nauðsynleg skref til að tryggja varnir lands okkar,“ segir í yfirlýsingu rússneska sendiráðsins í Osló.

Í danska blaðinu Jyllands-Posten er þessi þróun í samskiptum Norðmanna og Rússa borin undir herfræðinginn Mikkel Vedby Rasmussen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Hann segir laugardaginn 24. júní að Rússar hafi yndi af því að saka aðra um eitthvað sem hvíli á þeim sjálfum sem ásökunarefni auk þess feli þeir pólitískan boðskap gjarnan í skýringu á atburðum.

Þetta megi sjá af því að á sama tíma og Rússar hafi valdið óvissu í Úkraínu, Eistlandi og öðrum nágrannaríkjum saki þeir Norðmenn núna um að „skapa óvissu í samstarfi“ og  „einnig að auka spennu og draga úr stöðugleika á norðurslóðum“.

Danski prófessorinn segir:

„Rússar tala eins og þeir séu að skilgreina ástandið. Sannleikurinn er hins vegar sá að óstöðugleiki skapast aðeins ef Rússar grafa undan stöðugleikanum með viðbrögðum sínum. Þess vegna er hér í raun ekki um annað en pólitísk viðbrögð að ræða sem ætlað er að reyna að þvinga Norðmenn til að falla frá áformum um að efla varnarmátt sinn.“

Mikkel Vedby Rasmussen segir Norðmenn hafa „fullan rétt“ til að heimila bandarískum herafla að vera í landi sínu. Viðbrögð Rússa einkennist hins vegar af þeim erlenda þrýstingi sem á þeim hvílir meðal annars vegna hernaðaríhlutunar þeirra í Úkraínu.

Prófessorinn útilokar ekki að viðbrögð Rússa kunni að lokum að hafa áhrif í Danmörku.  Mikkel Vedby Rasmussen segir:

„Það er skynsamlegt fyrir okkur [Dani] að velta þessum viðbrögðum fyrir okkur þegar við íhugum að setja eldflaugar um borð í danskar freigátur eða metum hernaðarstöðuna á Eystrasalti. Rússar stunda vopnaglamur, aldrei er unnt að hafa slíkt að engu. Það sýnir að um þessar mundir vilja Rússar að samskipti við þá mótist frekar af árekstrum en samskiptum og samræðum.“

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …