Home / Fréttir / Rússneska öryggislögreglan segir móður frá Úkraínu launmorðingja við Moskvu

Rússneska öryggislögreglan segir móður frá Úkraínu launmorðingja við Moskvu

Alexander Dugin varð vitni að sprengjuárásinni á dóttur sína.

Rússneska öryggislögreglan, FSB, arftaki KGB á Sovéttímanum, sakaði mánudaginn 22. ágúst leyniþjónustu Úkraínu um morðið á Dariu Duginu, dóttur hugmyndafræðings rússneskrar öfga þjóðernishreyfingar, að kvöldi laugardags 20. ágúst skammt frá Moskvu.

Sprengja grandaði Toyota Land Cruiser sem Dugina ók á heimleið frá menningarviðburði. Þar var hún með föður sínum, Alexander Dugin. Hann hætti á síðustu mínútu að sitja í bílnum með dóttur sinni en kom að logandi bifreið hennar á morðstaðnum. Myndskeið sýna hann þar, fórna höndum í örvæntingu. Í fréttum mánudaginn 22. ágúst sagði hann væri á sjúkrahúsi eftir hjartaáfall vegna morðsins á dóttur hans eða vegna taugaáfalls.

FSB segir að nafngreind kona frá Úkraínu, fædd árið 1979, hafi gert árásina. Hún hafi komið komið til Rússlands um miðjan júlí með ungri dóttur sinni. Tekið á leigu íbúð í húsinu þar sem Dugina bjó til að geta kynnt sér daglegt líf hennar. Morðinginn hafi ekið um á Mini Cooper bifreið og notað þrjú ólík skráningarnúmer. Hún hafi flúið til Eistlands að verknaðinum loknum. FSB lagði ekki fram nein gögn máli sínu til stuðnings.

Stjórnvöld Úkraínu neita harðleg að þau hafi átt nokkra aðild að launmorðinu.

Í frétt rússnesku ríkisfréttastofunnar TASS er vitnað í ónefndan starfsmann réttargæslustofnunar sem segir að að sprengjan hafi verið virkjuð úr fjarlægð án þess að skýra það frekar.

Í rússneskum fjölmiðlum er haft eftir skyldmennum Duginu að hún og faðir hennar hafi verið á hátíð fyrir utan Moskvu og á síðustu mínútu áður en þau héldu þaðan hefðu þau ákveðið að hafa bílaskipti.

Alexander Dugin er lýst sem „andlegum leiðsögumanni“ við tilefnislausu innrás Rússa í Úkraínu. Hann hefur lengi hvatt til að Úkraína yrði sviplaus hluti Rússlands. Kenningar hans eru meginboðskapur stefnuskrár hreyfingar sem vill sameina Evruasíu í eina ríkjaheild. Stjórnmálafræðingar hafa skilgreint hreyfinguna sem fasíska, hún vilji að Rússar ávinni landi sínu þann á alþjóðavettvangi sem minni helst á Þýskaland í draumi nazista.

Alexander Dugin og Daria Dugina, dóttir hans, hafa verið háværir málsvarar innrásarinnar í Úkraínu.

Hvað sem líður tilkynningu FSB um konuna frá Úkraínu sem sökuð eru um sprengjuna telja aðrir að launmorðið sé í raun runnið undan rifjum FSB-manna sem hafi snúist gegn Pútin. Verknaðurinn sé til marks um að menn í innsta hring Pútins hafi snúist gegn honum.

Vitnað er til ummæla eins af fyrrverandi yfirmanns í starfsliði Pútins sem hafi kallað forsetann „trúð“ sem hafi orðið að lúta í lægra haldi fyrir Volodymyr Zelenskjí Úkraínuforseta.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …