Home / Fréttir / Rússneska öryggislögreglan leitar að njósnurum í vísindastöð ofurhraða-flugskeyta

Rússneska öryggislögreglan leitar að njósnurum í vísindastöð ofurhraða-flugskeyta

 

Þessi mynd úr kynningar-myndskeiði rússneska hersins á að sýna hvernig kjarnaoddurinn losnar frá Vangard-ofurhraða-flugskeytinu.´
Þessi mynd úr kynningar-myndskeiði rússneska hersins á að sýna hvernig kjarnaoddurinn losnar frá Avangard-ofurhraða-flugskeytinu.´

Rússneska öryggislögreglan (FSB) hefur gert húsleit í geimrannsóknastöð eftir að grunsemdir vöknuðu um að trúnaðarupplýsingum um ofurhraðskreitt flugskeyti hefði verið lekið til vestrænna njósnara.

Rússneska geimvísindastofnunin Roskosmos sagði að öryggisverðir sínir ynnu með starfsmönnum FSB að því að upplýsa sakamál.

Rússneska dagblaðið Kommersant segir að um 10 starfsmenn í TsNIIMash deild innan Roskosmos liggi undir grun. Leitað var í skrifstofu deildarstjóra. Blaðið segir að verði einhver fundinn sekur kynni hann að verða dæmdur fyrir landráð.

Ofurhraðskreið flugskeyti ná meira en fimmföldum hljóðhraða (Mach 5).

Fimmtudaginn 19. júlí birti rússneksa varnarmálaráðuneytið myndskeið af tveimur ofurhraðskreiðum flugskeytum sem kallast Kinzhal og Avangard. Bæði geta þau borið kjarnaodda.

Pavel Felgenhauer, sérfræðingur í málefnum rússneska hersins, sagði hins vegar við breska ríkisútvarpið, BBC, að hann hefði mjög miklar efasemdir um notagildi flugskeytanna og lýsti myndskeiðinu sem „áróðri“. Hann sagði rannsóknina vegna gruns um njósnir „pólitískt vandræðamál“.

Kommersant segir að lekinn hafi komið frá starfsmönnum TsNIIMash og hefur það eftir heimildarmanni sem fylgist með rannsókn FSB. „Margir verða látnir fjúka og þessu máli lýkur ekki með því einu að nokkrir verði reknir,“ sagði heimildarmaðurinn.

TsNIIMash gegnir lykilhlutverki vegna vísindarannsókna í þágu Roskosmos. Deildin er til heimilis í Koroljov í Moskvu-héraði.

Vefsíða BBC er heimild fyrir þessari frétt en þar er einnig pistill eftir Pavel Felgenhauer sem segir að þessi ofurhraðskreiðu flugskeyti verði aldrei til neins gagns. Þau minni á risavaxin flugskeyti sem dregin séu sem sýningargripir eftir Rauða torginu á tyllidögum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kunni vel að meta áróðursefni sem hann fái frá rússneska hernum. Unnið hafi verið að þessu verkefni á sovéttímanum það hefði svo verið sett í bið á tíunda áratugnum.

Felgenhauer minnir auk þess á að forstöðumenn herja á Vesturlöndum þurfi að hræða eigin þingmenn til þess að fá meira ráðstöfunarfé. Þeim hætti því jafnan við að margfalda rússnesku ógnina með 10.

Felgenhauer segir að Kinzhal sé ekki annað en Iskander-flugskeyti [skammdrægt] sem fest sé á flugvél. Því fylgi vandræði þar sem flugskeytið var ekki hannað í þessum tilgangi. Ekki sé unnt að losa kjarnaoddinn af flauginni og mjög mikil hætta sé á að það leysist upp þegar það kemur að nýju inn í lofthjúp jarðar. Ekki er unnt að miða skeytinu á hreyfanleg skotmörk. Hlaða verður upplýsingum um skotmarkið í skeytið áður en það er sent á loft.

Avangard er að sögn Felgenhauers svif-kjarnaoddur sem hannaður er til að hreyfast á óreglulegan hátt á ofurhraða í því skyni að rugla varnarkerfi. Vegna þessa eiginleika aukist hættan á að flugskeytið verði að engu og hittni þess minnki.

Í samtali við BBC frá Moskvu föstudaginn 20. júlí sagði Felgenhauer sem skrifar um hernaðarleg málefni fyrir rússneska dagblaðið Novaja Gazeta að þessi nýju flugskeyti ykju ekkert kjarnorku-fælingarmátt Rússa. Það þyrfti ekki að rugla nein eldflaugavarnakerfi, þessi kerfi sem Pútín nefndi oft væru einfaldlega ekki til á Vesturlöndum.

 

Heimild: BBC

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …