
Rússnesk yfirvöld efndu til ráðstefnu um borð í safn-ísbrjótnum Lenín í höfninni í Múrmansk þriðjudaginn 4. apríl, daginn eftir að hryðjuverk var unnið í St. Pétursborg þar sem jarðlestarvagn var sprengdur í loft upp og 11 manns fórust en um 40 særðust.
Heiti ráðstefnunnar í Múrmansk var: Leiðir til að efla varnir gegn hryðjuverkum á borgaralegum og hernaðarlegum kjarnorkuverum, að koma í veg fyrir kjarnorkuhryðjuverk, segir í blaði héraðsstjórnarinnar Murmansk Vestnik að sögn Thomasar Nilsens, ritstjóra vefsíðunnar Barents Observer miðvikudaginn 5. apríl.
Í rússneska blaðinu er vitnað í Aleksandr Metelkov, yfirmann í aðgerðadeild FSB, rússnesku öryggislögreglunnar, sem segir: „Kola-skaginn er fullur af kjarnorkuverum, viðgangsefnið er því mjög brýnt fyrir okkur.“
Hann vakti athygli á að hryðjuverkamenn tileinki sér nýjar aðferðir.
„Eins og við blasir í dag breyta hryðjuverkamenn stöðugt um aðferðir, þeir fara nýjar leiðir og beita nýjum ráðum til að ná markmiðum sínum,“ sagði Metelkov. „Þeir verða sífellt ómannúðlegri og grimmari. Til alls þessa verðum við einnig að taka tillit á okkar svæði.“
Thomas Nilsen segir að á fáum stöðum í heiminum séu fleiri kjarnakljúfar starfræktir en á Múrmansk-svæðinu. Í Kola-kjarnorkurafverinu eru fjórir kjarnakljúfar í gangi. Þá eru þarna kjarnorkuknúnu ísbrjótarnir: 50 Let Pepbedíj, Jamal og Sovjetitskíj Sojuz, hver með tvo kjarnakljúfa en um borð í ísbrjótunum Tajmíj og Vaigash og gámaskipinu Svermorput er einn kjarnakljúfur í hverju skipi. Skipin liggja öll við bryggju um km fyrir norðan nyrstu íbúðablokkirnar í Múrmansk ásamt þremur þjónustuskipum sem taka við úrgangsvatni frá kljúfunum.
Við ströndina milli Múrmanks og Noregs eru heimahafnir rúmlega 30 kjarnorkuknúinna kafbáta, í nokkrum þeirra eru tveir kjarnakljúfar. Þarna er einnig heimahöfn öflugasta herskips Rússa, Péturs mikla, sem er knúið af tveimur kjarnakljúfum.
Fyrir utan allt þetta eru á þessum slóðum á þriðja hundruð úreltir en geislavirkir kjarnakljúfar frá kafbátum og ísbrjótum. Umbúnaður um þessa kljúfa er misjafnlega góður, flestir þeirra eru á landi við Saida-flóa. Þarna er líka mikið af geislavirkum úrgangi.
Oleg Gerasin, æðsti yfirmaður FSB á Múrmansk-svæðin, segir að í maí verði sérstök ráðstefna í Múrmansk um öryggisgæslu vegna kjarnakljúfa.
„Bein þátttaka skipa úr Norðurflotanum í aðgerðum gegn hryðjuverkum í Sýrlandi veldur því meðal annars að stuðningsmenn hryðjuverkasamtakanna Daesh (Ríkis íslams) hafa áhuga á okkar svæði. Með þetta í huga er ekki aðeins nauðsynlegt að herða á gildandi reglum gegn hryðjuverkum heldur einnig innleiða nýjar til að verða við öllu búinn við núverandi ástand heimsmála.“