Home / Fréttir / Rússneska orrustuþotur ögra bandarískum kafbátaleitarvélum yfir Svartahafi

Rússneska orrustuþotur ögra bandarískum kafbátaleitarvélum yfir Svartahafi

Nefið á Poseidon P-8 vél.
Nefið á Poseidon P-8 vél.

Rússneskri orrustuþotu af gerðinni Sukhoi Su-27 var flogið í aðeins þriggja metra fjarlægð frá bandarískri Poseidon P-8 kafbátaleitarvél bandaríska flotans skammt frá rússnesku landamærunum á Svartahafi miðvikudaginn 7. september. Bandaríkjamenn telja atvikið hafa skapað hættuástand.

Bandarísk stjórnvöld fordæmdu miðvikudaginn 7. september sem „hættulegt“ flug rússneskrar orrustu fyrir framan bandaríska eftirlitsflugvél yfir Svartahafi. Í fyrirflugi sem stóð í um 19 mínútur hefði rússneska orrustuþotan um tíma verið í aðeins þriggja metra fjarlægð frá bandarísku vélinni. Litið er á slíkt flug sem „hættulegt og ófagmannlegt“ sagði ónafngreindur embættismaður í bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Rússar segja að þarna hafi verið nokkrar bandarískar flugvélar á ferð og að fyrirflugið hafi verið „í samræmi við reglur“.

Poseidon P-8 vélarnar af Boeing-gerð eru mjög langdrægar eftirlits- og kafbátaleitarvélar. Þær hafa stundum viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og rætt er um endurbætur á flugskýli þar til að völlurinn nýtist vélunum betur. Bandaríkjamenn segja að atvikið yfir Svartahafi hafi átt þann aðdraganda að Sukhoi Su-27 þotan rússneska hefði elt bandarísku vélina um nokkurn tíma áður en fyrirflugið sjálft hófst.

Í tilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins segir að Su-27 vélar hafi verið sendar í áttina að bandarískum P-8 Poseidon-vélum sem hafi „í tveimur tilvikum reynt að nálgast rússnesku landamærin yfir Svartahafi án þess að ratsjársvarar þeirra væru virkir“. Ratsjársvarar senda frá sér merki sem numin eru af nálægum ratsjám og auðvelda þannig að fylgst sé með ferðum flugvéla. Þá segir rússneska ráðuneytið:

„Eftir að rússnesku orrustuþoturanr voru komnar nægilega nálægt njósnavélunum til að staðfesta sjónrænt skráningarmerki á hliðum þeirra breyttu bandarísku flugvélarnar skyndilega um stefnu og hurfu á braut.“

Heimildarmaðurinn innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði að flugvélar og skip bandaríska flotans sæju oft til rússnesks liðsafla á þessum slóðum og í flestum tilvikum væru samskiptin hættulaus og fagmannleg. „Á hinn bóginn veldur þetta hættuflug [Rússa] okkur miklum áhyggjum“ af því að það gæti „að óþörfu“ aukið á spennui og jafnvel leitt til slysa, sagði Bandaríkjamaðurinn.

Í erlendum fjölmiðlum er minnt á að mörg svipuð flugatvik hefðu orðið í samskiptum Bandaríkjamanna og Rússa frá því að Krím-skagi var ólöglega innlimaður í Rússland vorið 2014. Þá er þess getið að um miðjan apríl 2016 hafi tvær rússneskar orrustuþotur af Sukhoi Su-24 gerð æft árás á bandaríska tundurspillinn Donald Cook á Eystrasalti.

 

Heimild: Le Figaro

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …