Home / Fréttir / Rússneska orrustubeitiskipið Pétur mikli siglir á Eystrasalti í sumar – æfði við Ísland árið 2004

Rússneska orrustubeitiskipið Pétur mikli siglir á Eystrasalti í sumar – æfði við Ísland árið 2004

Rússneska orrustubeitiskipið Pétur mikli.
Rússneska orrustubeitiskipið Pétur mikli.

Eina kjarnorkuknúna orrustubeitiskipi í rússneska Norðurflotanum, Pjotr Velikíj, Pétri mikla, verður í sumar ásamt kjarnorkukafbátum siglt inn á Eystrasalt til að taka 30. júlí þátt í árlegri flotasýningu við Kronstad-eyju skammt fyrir utan St. Pétursborg. Þetta segir á vefsíðu International Barents Observer (IBO) og er haft eftir rússneska blaðinu Nezavisimaja Gazeta

Auk Péturs mikla og kjarnorkuknúinna kafbáta taka meira en 30 herskip og 40 flugvélar og þyrlur þátt í sýningunni.

Dagur rússneska flotans er haldinn hátíðlegur undir lok júlí ár hvert og tekur Vladimír Pútín Rússlandsforseti venjulega þátt í honum. Meginhátíðarhöldin eru ekki alltaf á sama stað. Þau hafa til dæmis verið við höfuðstöðvar Norðurflotans í Severomorsk á Kóla-skaga og árið 2014, nokkrum mánuðum eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga, voru þau í Sevastopol, heimahöfn rússneska Svartahafsflotans.

Rússar halda ekki úti neinum kjarnorkuknúnum skipuð á Eystrasalti, hvorki frá St. Pétursborg né Kaliningrad.

Orrustubeitiskipið Pétur mikli og nokkrir gamlir rússneskir kjarnorkukafbátar voru smíðaðir í stöðvum við St. Pétursborg. Pétur mikli hefur ekki verið á Eystrasalti síðan í jómfrúarferð sinni til Barentshafs síðla árs 1996.

Á vefsíðu IBO segir að á leið sinni til St. Pétursborgar muni Pétur mikli og kafbátarnir sigla suður með strönd Noregs í gegnum Eyrarsund milli Danmerkur og Svíþjóðar og um Eystrasalt fyrir austan Gotland og síðan í austur milli Finnlands og Eistlands.

Pétur mikli er knúinn tveimur kjarnakljúfum og um borð eru háþróuð vopn þar á meðal stýriflaugar og skotflaugar til loftvarna, tundurskeyti og sprengjuvörpur.

Fréttin á IBO hefur vakið athygli í Danmörku og var sagt frá henni í Jyllands Posten fimmtudaginn 23. febrúar enda vekur ávallt verulega athygli þegar þessi stóru rússnesku herskip eru á ferð. Er skemmst að minnast þess að Pétur mikli og eina flugmóðurskip Rússa Admiral Kuznetsov sigldu frá Kóla-skaga að ströndum Sýrlands síðastliðið haust og til baka fyrir skömmu.

Í tilefni af þessu má einnig rifja upp það sem gerðist hér við strendur Íslands í spetember og október árið 2004.

Árið 2004, 24. september, afhenti fulltrúi sendiráðs Rússlands íslenska utanríkisráðuneytinu orðsendingu þess efnis, að floti Rússlands áformaði að senda herskipasveit ásamt flugmóðurskipinu Admiral Kuznetsov til margvíslegra æfinga á norðurhluta Atlantshafs 25. september til 25. október, yrði meðal annars æft flug herflugvéla og þyrlna frá borði flugmóðurskipsins.

Á hefðbundnu gæsluflugi 29. september 2004 varð landhelgisgæslan fyrst vör við fimm rússnesk herskip, beitiskip, tundurspilli, birgðaskip og tvö björgunarskip fyrir akkeri á Digranesgrunni út af Vopnafirði. Var að nýju flogið yfir fimm herskip þarna 2. október og síðar þann sama dag sást rússneska orrustubeitiskipið Pétur mikli (Pyotr Velikiy) á siglingu um 24 sjómílur aust-norðaustur af akkerisstað skipanna fimm.

Við athugun 9. október voru sjö rússnesk herskip fyrir akkeri á Þistilfjarðargrunni – 8 til 15 sjómílur utan við 12 sjómílna mörkin, sömu sex skip og áður og flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov og var það tengt með slöngu við birgðaskipið Segey Osipov og sást úr lofti olíubrák á sjónum út frá skipunum.

Við svo búið var varðskip sent á svæðið og var þar frá 10. til 13. október og tóku varðskipsmenn meðal annars sýni af olíubrákinni, sem sást, 11. október flaug P-3 Orion kafbátaleitavél frá norska hernum yfir svæðið og jafnframt Nimrod-eftirlitsþota frá breska flughernum.

Landheldisgæslan flaug til eftirlits að morgni laugardags 16. október en þá voru skipin horfin af svæðinu.

Utanríkisráðuneytið óskaði hinn 11. og 14. október skýringa á ferðum herskipanna hjá rússneska sendiráðinu. Íslenska sendiráðið í Moskvu ítrekaði 15. október beiðni um skýringar. Þann sama dag barst tilkynning frá rússneska utanríkisráðuneytinu um að æfingunni væri lokið og að skipin væru á förum af svæðinu út af Þistilfirði. Rússnesk stjórnvöld fullyrtu að æfingin hefði verið áfallalaus.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …