Home / Fréttir / Rússneska hernaðarógnin við Svíþjóð er „áþreifanleg“ segir njósnastofnun hersins

Rússneska hernaðarógnin við Svíþjóð er „áþreifanleg“ segir njósnastofnun hersins

Sænskir hermenn við gæslu á Gotlandi í janúar 2022.

Hættan sem steðjar að öryggi Svíþjóðar hefur aukist og hernaðarógnin sem stafar af Rússlandi er „áþreifanleg“ segir í nýrri ársskýrslu njósnastofnunar sænska hersins, Militära underrättelsetjänsten, (Must) sem kynnt var mánudaginn 20. febrúar.

Rússland er laskað hernaðarlega en rússneski herinn getur enn látið að sér kveða á hafi úti og í háloftunum, segja Svíar. Í marga ártugi hefur ástand öryggismála í Evrópu ekki verið jafn alvarlegt og kallar nú fram minningar um kalda stríðið – leikreglunum hefur á hinn bóginn fækkað og fyrirsjáanleikinn minnkað að mati Must.

„Færi svo að Rússar sigruðu í stríðinu yrði ástandið enn hættulegra,“ segir Lena Hallin, forstjóri Must.

Stríðið í Úkraínu sýni einnig að Rússar hafi lækkað þröskuldinn við töku ákvarðana um valdbeitingu og tvínóni ekki við að taka mikla áhættu.

„Við getum slegið því föstu að sú skipan öryggismála sem við höfum þekkt í Evrópu er úr sögunni,“ segir Hallin við sænsku TT-fréttastofuna.

Hún segir að eins og málum sé nú háttað geti hún ekki fullyrt að Rússar hafi hafið stórsóknina sem búist er við í tilefni af því að 24. febrúar er eitt ár liðið frá því að þeir réðust inn í Úkraínu.

„Við verðum að sjá hvað gerist á næstu vikum. Vissulega kann sókn þeirra að vera hafin en hún sé öðru vísi en við höfðum ímyndað okkur vegna þess yfir hvaða búnaði þeir ráða. Nú er barist af hörku en víst er að víglínan breytist ekki mikið,“ segir Hallin.

Hún leggur áherslu á að hernaðarlegur stuðningur til Úkraínu úr vestri sé enn mjög mikilvægur.

Hvað sem líði flutningi á hermönnum Rússa og miklu mannfalli þeirra í Úkraínu segir Must að ógnin gegn Svíþjóð sé áþreifanleg. Einingar úr rússneska heraflanum séu enn í búðum sínum við Eystrasalt og á Kólaskaga. Við aðild Finna og Svía að NATO kunni Rússar enn að efla her sinn á þessum slóðum.

„Landamæri þeirra og NATO lengjast verulega mikið og þeir kunna að vilja auka styrk sinn þar meira en áður,“ segir Hallin.

Hún telur að öryggi Svíþjóðar hafi aukist eftir að landið sótti um aðild að NATO og umsókninni var vel tekið af 28 af 30 aðildarlöndum bandalagsins. Fyrir utan þetta hafi Svíar fengið tvíhliða öryggistryggingu með samningum við margar mikilvægar þjóðir.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …