Home / Fréttir / Rússneska elítan er háð krísum segir fyrrverandi ráðgjafi Pútíns

Rússneska elítan er háð krísum segir fyrrverandi ráðgjafi Pútíns

Gleb Pavlovskij
Gleb Pavlovskij

 

Rússneska elítan er háð krísum. Kerfið þarf stöðugt nýjar hörmungar því að lögmæti sitt sækja valdsmennirnir til þess að koma fram sem frelsarar er haft eftir Gleb Pavlovskij, fyrrverandi ráðgjafi Pútíns, í Svenska Dagbladet. Vandi Rússlands felist meðal annars í skorti á pólitískum áhuga meðal þjóðarinnar

„Þið á Vesturlöndum eruð altekin af Pútín. Það er hins vegar ekki Pútín sem er lykillinn að skilningi á því hvernig Rússar haga sér. Lykilinn er að finna í kerfinu. Þegar maður gengur um götur Moskvu og sér menn rífa upp gangstéttar segir maður við sjálfan sig: Þeir sinna þó vegagerð. Málum er alls ekki þannig háttað. Hér er um að ræða embættismenn sem hafa í huga að fá eitthvað í aðra hönd með því að hefja byggingarframkvæmd í því skyni að krækja í mútufé,“ segir Gleb Pavlovskij.

Í 15 ár starfaði Gleb Pavlovskij sem ráðgjafi við forsetaembættið í Moskvu. Hann var kallaður grái kardínálinn og var einn þeirra sem mótaði ímynd Pútíns – sterkur leiðtogi, vald yfir fjölmiðlunum, andstaða í fjötrum. Pavloskíj starfaði náið með spunamiðlaranum Vladislav Surkov og tók meðal annars þátt í að stofna hina áköfu ungliðahreyfingu Nasji.

„Þetta var eins og taka þátt í klappliði, að standa í stúkunni og hvetja eigið lið í leik. Sé maður hluti af kerfi, tekur maður það inn á sig og þess vegna breytist maður,“ segir Pavlovskij þegar ég hitti hann í skrifstofu hans, segir blaðakonan Anna-Lena Laurén. Áður hafði hann aðsetur við Moskvufljót andspænis Kreml, nú hefur Pavlovskij flutt í eitt skrifstofuherbergi skammt frá Tverskaja, aðalgötu Moskvu.

Dag nokkurn í apríl 2011 stóð Pavlovskij fyrir framan Frelsishliðið á Kreml og tók fram segulkortið sitt.

„Það virkaði ekki. Verðirnir héldu að um tæknilegt vandamál væri að ræða. Ég skildi hins vegar strax hvað hafði gerst – ég hafði fallið í ónáð vegna greina sem ég skrifaði til stuðnings Dmitrij Medvedev.“

Pavlovskij taldi að Medvedev ætti að vera heimilt að bjóða sig fram til að sitja annað kjörtímabil sem forseti.

„Pútín líkaði það ekki og til að sýna það lét hann loka á segulkortið mitt,“ segir Pavlovskij og brosir mildilega.

Gleb Pavlovskij hefur séð marga rússneska stjórnmálamenn ummyndast í tíð Pútíns. Hann tekur Jelenu Mizulinu sem dæmi, hún var meðal frumkvöðla að lögunum gegn svonefndum samkynhneigðum áróðri, og Sergej Markov, sem ávann sér orð sem sókndjarfur sendiboði Pútíns.

„Mizulina var einu sinni skynsöm kona en í baráttu sinni fyrir að sjást og heyrast hefur hún breyst í hluta af kerfinu. Markov vann áður hjá Carnegie [bandarískri hugveitu]. Honum líkar ekki að vera minntur á það!“

Gleb Pavlovskij tók þátt í að skipuleggja kosningabaráttu Pútíns árið 2000 og starfaði síðan í skjóli valdsins til 2011. Hann segir Pútín ekki hafa neina áætlun, enga heildarstefnu, allt sé leikið af fingrum fram. Pavlovskij stjórnar enn þann dag í dag ráðgjafafyrirtækinu Sjóður í þágu virkra stjórnmála. Hann veitir viðskipavinum sínum ráðgjöf en vill ekki segja hverjir þeir eru og skrifar auk þess bækur. Hin nýjasta þeirra heitir  Kerfi rússneska sambandsríkisins og snýst um stjórnarhætti í Rússlandi og hvað býr að baki því sem gerist í Kreml.

„Þegar ég ritaði undir samning við Kremlverja árið 1996 var ég alveg sannfærður um að Rússar þyrftu mest á sterku ríki að halda. Þegar Pútín varð forseti árið 2000 hélt helmingur þjóðarinnar að hún byggi enn í Sovétríkjunum. Þess vegna gripum við til slagorðsins Gosudarstvo Rossii – rússneska ríkið.“

Pavlovskij segir að markmiðið hafi verið að skapa festu í landinu og leggja rækt við hreina rússneska en ekki sovéska sjálfsmynd.

„Við vildum binda enda á öll innbyrðis átök og töldum að eina leiðin til þess væri að móta sterkt ríkisvald. Í þessu fólst meðal annars að banna stjórnarandstöðunni aðgang að stóru fjölmiðlunum. Frelsið átti að koma síðar. Margir okkar trúðu þessu en þetta reyndist rangt. Ég er einn þeirra sem ber sök á að þetta varð eins og það varð,“ segir Pavlovskij

Hann segir þetta svipbrigðalaust enda um staðreynd að ræða. Átökin hurfu alls ekki – þau eiga sér nú stað á bakvið þéttofin tjöld og aðeins fáir verða vitni að þeim. Gagnvart almenningi er hins vegar brugðið upp mynd af hugmyndafræðilegu stríði milli staðfastra, kristinna, íhaldssamra Rússa og ofur-frjálslyndra, máttlítilla vestrænna þjóða án sjálfsmyndar.

„Undir lok ævi sinnar stjórnaði Stalín sjálfur gerð áróðursmynda. Hann horfði síðan á þær og taldi þær sannar. Pútin gerir sömu mistök, hann verður fórnarlamb eigin ritskoðunar,“ segir Pavlovskij.

Hann segir að vestrænir greinendur fari villur vega ef þeir halda að síversnandi efnahagur geti orðið Pútín að falli.

„Þeir sem mótmæltu Pútín árið 2012 voru mun betur staddir. Engu að síður mótmæltu þeir. Nú er hagur fólks verri en það mótmælir ekki. Í fyrsta sinn um langt skeið njóta Kremlverjar lögmætis í augum fólksins, þetta má rekja til Krímskaga. (Rússland innlimaði Krím árið 2014.) Fólk sættir sig við minna úrval í verslunum þar sem það telur að umheimurinn eigi í stríði við Rússa. Þetta varir þó ekki að eilífu. Kerfið verður brátt að finna eða skapa nýja krísu til að halda lífi. Þetta er eins og jazz-tónleikar – stöðugur spuni.“

  • Boðar þetta ekki eitthvað illt fyrir ástandið í Úkraínu?

„Vandi Pútíns er að hann getur ekki lengur horfið frá Úkraínu. Þá yrði sviðið autt og Porosjenko gæti náð því. Þetta mundi leiða til blóðbaðs. Pútín getur ekki leyft þessu að gerast því að það mundi skapa honum gífurlegan vanda heima fyrir,“ segir Pavlovskij.

  • Áður fyrr varstu sovéskur andófsmaður. Hvernig samrýmdist það starfi þínu fyrir Kremlverja?

„Andófið á Sovéttímanum var ekki stjórnmálahreyfing. Við vildum hafa áhrif á valdið, siðferðilega og menningarlega, við vildum ekki taka þátt í stjórnmálum. Þegar Gorbatsjov kom til sögunnar gekk okkur mjög vel, hann tók tillit til okkar þegar hann hleypti perestrojkunni og glasnost af stokkunum. Þegar ég hóf að starfa fyrir Kremlverja taldi ég mig geta haft áhrif á valdið. Nú fagna ég því að mér var sparkað á réttum tíma.“

Gleb Pavlovskij  er fæddur 5. mars 1951 í Odessa í Úkraínu.

Hann nam sagnfræði við Odessa-háskóla. Starfaði sem sögukennari og kenndi meðal annars á úkranísku. Hann lét af kennarastarfinu árið 1974 eftir að hann var handtekinn af KGB fyrir að dreifa bókinni Gúlag-eyjaklasanum eftir Alexander Solzjenitsyn. Á árunum 1978 til 1980 tók hann þátt í útgáfu andófsritsins Poiski í Moskvu. Hann var dæmdur í fimm ára útlegð árið 1982. Jelena Bonner, ekkja Andreis Sakharovs sakaði Pavlovskij um að hafa ljóstrað upp um son og eiginkonu andófsmannsins Sergejs Kovaljovs.

Árið 1995 stofnaði Pavlovskij Sjóðinn í þágu virkra stjórnmmála. Ári síðar hóf hann störf fyrir forsetaembættið í Kreml. Hann tók þátt í að skipuleggja kosningabaráttu Pútíns árið 2000.

Ásamt með Vladislav Surkov kynnti Pavlovskij hugtakið „lóðrétt vald“ sem er þáttur í grunnstefnu Pútíns – það er að allt vald komi að ofan.

Árið 2011 var Pavlovskíj sviptur embætti ráðgjafa fyrir forsetaembættið.

 

(Heimild: Þetta er viðtal sem Anna-Lena Laurén tók og birti í Svenska Dagbladet þriðjudaginn 25. ágúst.)

 

.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …