
Rússneska Dúman, neðri deild rússneska þingsins, hefur samþykkt breytingu á stjórnarskránni sem heimilar Vladimir Pútín forseta að bjóða sig fram að nýju í forsetaembættið árið 2024.
Að óbreyttu segir stjórnarskráin að forseti Rússlands geti setið tvö sex ára kjörtímabil samfleytt. Samkvæmt því á Pútín (67 ára) að hverfa úr embætti 2024 þegar seinni tveggja kjörtímabila lotu hans lýkur.
Nú hefur Dúman lagt blessun sína yfir breytingu á þessu. Atkvæði féllu þannig um málið þriðjudaginn 10. mars að 380 þingmenn samþykktu breytinguna, 43 voru á móti og einn sat hjá.
Rétt áður en atkvæði voru greidd sagði Pútín að hann samþykkti breytinguna en aðeins ef stjórnlagadómstóllinn heimilaði hana.
„Að meginstefnu væri þetta unnt en með einu skilyrði – að stjórnlagadómstóllinn úrskurði opinberlega að breyting sem þessi bryti ekki í bága við meginreglur og aðalákvæði stjórnarskrárinnar,·“ sagði Pútín í ávarpi á fundi Dúmunnar.
Valentina Tereshkova, fyrsta konan til að fara út í geiminn árið 1963, flutti tillöguna um að Pútín mætti bjóða sig fram að nýju 2024. Skömmu síðar ávarpaði Pútín þingheim.
Nái Pútín kjöri 2024 getur hann setið enn í tvö kjörtímabil, það er til ársins 2036 á grundvelli þess sem samþykkt var í Dúmunni. Hann var forseti árið 2000. Í eitt kjörtímabil var hann forsætisráðherra.
Í janúar 2020 sagði Vladimír Pútín að hann hefði engin áform um að sitja við völd eftir 2024 í krafti breytinga á stjórnarskránni.