Home / Fréttir / Rússnesk yfirvöld vega að rétti frumbyggja í norðri

Rússnesk yfirvöld vega að rétti frumbyggja í norðri

tass10384097-2

Borgardómur í Moskvu úrskurðaði miðvikudaginn 9. nóvember 2019 að leysa bæri upp baráttusamtök fyrir réttindum frumbyggja á norðurslóðum um 20 árum eftir að þau voru stofnuð. Um er að ræða lið í aðför rússneskra stjórnvalda að frjálsum félagasamtölum.

Árið 2015 settu rússnesk yfirvöld á svartan lista samtök sem störfuðu undir enska heitinu Center for Support of Indigenous Peoples of the North/Russian Indigenous Training Center (CSIPN/RITC). Eins og nafnið gefur til kynna unnu samtökin að því að styrkja og efla réttarstöðu frumbyggja í Norður-Rússlandi. Samtökin voru talin falla undir lög um „erlendra útsendara“. Þau voru stofnuð árið 2001 til að veita íbúum í Norður-Rússlandi, Síberíu og Austurlöndum fjær víðtæka aðstoð. Samtökin höfnuðu ásökunum um að þau fengju erlendan fjárstuðning og í fyrra voru þau tekin af svarta listanum. Borgardómur í Moskvu setti þau hins vegar í varanlegt bann með úrskurði sínum 9. nóvember 2019 og batt enda á allt starf þeirra.

Uppræting CSIPN/RITC „verður ekki stöðvuð frekar en dauðarefsing“ sagði Grigoríj Vajpan, lögfræðingur samtakanna, við viðskiptadagblaðið Kommersant fimmtudaginn 10. nóvember. Í blaðinu sagði að dómsmálaráðuneyti Rússlands hefði farið þess á leit við dómstólinn að banna starfsemi samtakanna enda hefðu þau „hvað eftir annað“ brotið gegn lögunum um frjáls félagasamtök.

Í Kommersant var haft eftir Rodion Suljandziga, forstöðumanni CSIPN/RITC, að þar sem norðurslóðir og náttúruauðlindir þar skiptu rússnesk fyrirtæki miklu og jafnframt fjárhag ríkisins vildu stjórnendur fyrirtækjanna og ríkisvaldið tryggja að frumbyggjar gætu ekki lagt stein í götu framkvæmda á svæðinu. Samtökin hefðu gætt hagsmuna þessa fólks í mörg ár og þau gætu leitað réttar frumbyggjanna á æðri dómstigum í Rússlandi og á alþjóðavettvangi. Koma ætti í veg fyrir slíka málsvörn með því að banna starfsemi samtakanna fyrir fullt og allt.

Á norsku vefsíðunni Barents Observer birtist miðvikudaginn 27. nóvember viðtal við Dmitríj Berezhkov sem býr nú í Noregi en er fyrrverandi varaforseti

RAIPON, Russian Association of Indigenous Peoples of the North, Siberia and the Far East, – rússneskra samtaka frumbyggja í norðri, Síberíu og Austurlöndum fjær.

Hann segir að með því að banna CSIPN/RITC, samtök sem barist hafi fyrir málstað frumbyggja, staðið vörð um mannréttindi og menningararfleifð og stuðlað að umhverfisvernd framkvæmi rússnesk stjórnvöld stefnu sem miðar að því að fækka gagnrýnisröddum í þeirra garð.

Dmitríj Berezhkov segir einnig: „ Ástæðan fyrir því að þetta gerist nú er að Rússar fara næst með formennsku í Norðurskautsráðinu.“

Íslendingar gegna nú formennsku í Norðurskautsráðinu en Rússar taka við af þeim vorið 2021.

„Öryggisráðgjafar og herfræðingar eru að hreinsa sviðið,“ segir Berezhkov.

Hann óttast að stjórnvöld leyfi ekki frekari umræður um mál sem skipta frumbyggjana máli eins og kolavinnslu, olíu- og gasvinnslu á freðmýrum Síberíu eða skógarhögg og trjávinnslu á norðlæga barrskógabeltinu.

Rússneska dómsmálaráðuneytið sendi RAIPON viðvörun í nóvember 2012 um að það yrði að hætta starfsemi sinni vegna ólögmætra þátta innan hennar. Skömmu síðar var gerð stjórnarbylting í RAIPON og menn hollir Moskvuvaldinu tóku mál samtakanna í sínar hendur.

Dmitríj Berezhkov heldur nú úti gagnagrunni um réttindi frumbyggja í norðurhluta Rússlands. Hann hvetur alþjóðastofnanir til að átta sig á að ekki sé allt sem sýnist þegar rætt sé við þá sem segjast vera talsmenn frumbyggja.

„Í viðræðunum við RAIPON ættu alþjóðastofnanir að átta sig á því að þær eiga í samskiptum við ólögmæta fulltrúa rússneskra frumbyggja,“ segir Berezhkov.

Fulltrúar RAIPON sitja jafnan fundi Norðurskautsráðsins. Snemma í nóvember sendi RAIPON frá sér yfirlýsingu sem skilja mátti á þann veg að samtökin mundu styðja CSIPN/RITC í málaferlunum. Jafnframt var þó áréttuð nauðsyn þess að fara að lögum og fyrirmælum dómsmálaráðuneytisins. Hvatt var til þess að frumbyggjar sameinuðust í þágu eigin hagsmuna og ættu uppbyggilegar samræður við yfirvöld sem væri jafnan erfiðara en að hafa hátt á netinu eða í samfélagsmiðlum.

Skömmu eftir að dómurinn féll gegn CSIPN/RITC hvatti Evrópusambandið rússnesk yfirvöld til að skapa „viðunandi skilyrði fyrir ríkisaðstoð við frjáls félagasamtök og til að skapa opið og vinsamlegt vaxtarumhverfi þeirra“.

Barents Observer sneri sér til norska utanríkisráðuneytisins vegna málsins sem sagði að í lýðræðisríki skipti sköpum að menn hefðu málfrelsi og staðinn væri vörður um réttindi minnihlutahópa. Audun Halvorsen aðstoðarutanríkisráðherra sagði mjög dapurlegt að rússnesk yfirvöld hefðu beitt valdi til að binda enda á starf CSIPN/RITC.

Hann sagði að í huga Norðmanna væri mikilvægt að styðja og efla samtök almennra borgara, þar á meðal í Rússlandi, í formennskutíð þeirra í Barentsráðinu 2019 til 2021.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …