Home / Fréttir / Rússnesk yfirvöld neita Navalníj um nauðsynlega læknisaðstoð

Rússnesk yfirvöld neita Navalníj um nauðsynlega læknisaðstoð

Alexei Navalníj
Alexei Navalníj

Læknar tengdir rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalníj (44 ára) sem dvelst veikur og í hungurverkfalli í fangelsi reyndu árangurslaust laugardaginn 17. apríl að fá að hitta hann. Læknarnir óttast að hann fái hjartaáfall fyrirvaralaust.

Navalníj hóf hungurverkfall 31. mars og mótmælti á þann hátt vondum aðbúnaði í fangelsinu. Yfirstjórn þess neitaði sér um læknisaðstoð og aðgang að lyfjum. Lögfræðingar Navalníjs segja að hann sé sárþjáður af brjósklosi.

Anastasia Vassilieva, einkalæknir Navalníjs, og þrír aðrir læknar krefjast þess að þeir fái tafarlaust að hitta Navalníj. Bréf læknanna til fangelsisstjórnarinnar birtist á Twitter-síðu Vassilievu.

Hún segir að potassium magn í blóði Navalníjs sýni að hann geti fengið kransæðastíflu án minnsta fyrirvara. Hann ætti í raun að vera í gjörgæslu ef farið væri að almennum starfsháttum lækna, segir hjartalæknirinn Jaroslav Atsjikhimine á Facebook-síðu sinni.

Kira Iarmjitsj, upplýsingafulltrúi Navalníjs, vitnar á Twitter-síðu sinni í lækninn

Alexander Poloupane sem fékk leyfi til að vitja Navalníjs og segir að hann verði að fá „fulla sjúkrahúsþjónustu. Hefjist ekki læknismeðferð deyr [Navalníj] einhvern næstu daga“.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði við blaðamenn í Hvíta húsinu sem spurðu hann um meðferðina á Navalníj að hún væri „algjörlega óréttlát“. Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, hefur lýst „gífurlegum áhyggjum“ franskra stjórnvalda af heilsufari Navalníjs. Vonar ráðherrann að Navalníj fái nauðsynlega læknisþjónustu og frelsi.

Í fyrra tókst launmorðingum ekki að drepa Navalníj með taugaeitri. Hann sakar æðstu stjórnendur Rússa í Kremlarkastala í Moskvu og starfsmenn öryggisstofnana þeirra um eiturárásina á sig, því neita Kremlverjar staðfastlega.

Kira Iarmjitsj sem var við hlið Navalníjs þegar hann veiktist hastarlega vegna eitrunarinnar í ágúst 2020 segir á Facebook að ástandið núna minni á það sem þá gerðist. „Alexei tekst nú á við dauðann. Þetta er spurning um daga eins og heilsu hans er háttað,“ skrifar hún og áréttar hve fáir hafi fengið að hitta hann síðan hann var lokaður inni í Pokrov-fangabúðunum um 100 km fyrir austan Moskvu. Búðunum er lýst sem grimmdarlegasta fangelsi Rússlands.

Navalníj sneri til Rússlands í janúar 2021 eftir að hafa dvalist fimm mánuði í Þýskalandi til að ná sér eftir eiturárásina. Strax við komuna til Moskvu var hann tekinn fastur og síðan dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir gamalt fjársvikamál sem hann lýsir sem pólitískum ofsóknum.

Julia, eiginkona Navalníjs, sem heimsótti hann í byrjun liðinnar viku segir að hann sé 76 kíló að þyngd, það er níu kílóum léttari en við upphaf hungurverkfallsins.

Eftir að Navalníj hlaut fangelsisdóminn sögðu samstarfsmenn hans að þeir ætluðu að stofna til „mestu mótmælaaðgerða í nútímasögu Rússlands“. Þeir hvöttu Rússa til að styðja framtakið með því að skrá nafn sitt á netsíðu. Laugardaginn 17. apríl höfðu 440.000 manns orðið við hvatningunni. Rússnesku stjórnarandstæðingarnir ætluðu að fá 500.000 einstaklinga til að skrá sig á vefsíðuna áður en þeir tilkynntu dagsetningu mótmælanna.

Sunnudaginn 18. apríl mátu vinir Navalníjs stöðu hans hins vegar svo alvarlega að ekki ætti að bíða eftir að undirskriftir yrðu 500.000 heldur að boða strax til opinberra mótmæla og verða þau miðvikudaginn 21. apríl um allt Rússland. Dagsetningin er engin tilviljun því að þennan sama dag ætlar Vladimir Pútin Rússlandsforseti að flytja þjóðinni ávarp sem hann hefur seinkað hvað eftir annað í marga mánuði.

Talið er að Pútin hafi ætlað að gefa fyrirheit um milljarða fjárveitingar til margvíslegra verkefna vegna komandi kosninga í Rússlandi. Verði víðtæk mótmæli um allt Rússland sama dag neyðist hann líklega til að haga málflutningi sínum á annan veg og horfast í augu við afleiðingar ofsókna stjórnvalda gegn Navalníj. Boðað er til mótmæla í öllum borgum Rússlands.

Leitað hefur verið eftir stuðningi við Navalníj meðal áhrifafólks á Vesturlöndum, rúmlega sjötíu skrifuðu til dæmis undir grein sem birtist í franska blaðinu Le Monde um helgina þar sem hvatt er til að Navalníj fái nauðsynlega læknisaðstoð. Meðal þeirra sem setja nöfn sín undir greinina eru leikararnir: Jude Law, Vanessa Redgrave og Benedict Cumberbatch og rithöfundurinn Svetlana Alexievitsj.

 

Heimild: Le Monde

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …