Home / Fréttir / Rússnesk yfirvöld hefja nýjan málarekstur gegn Bill Browder

Rússnesk yfirvöld hefja nýjan málarekstur gegn Bill Browder

 

Bill Browder
Bill Browder

 

Rússnesk yfirvöld hafa að nýju tekið til við málarekstur gegn Bill Browder, bandarískum fésýslumanni, höfundi bókarinnar Red Notice sem kom út á íslensku í haust undir heitinu Eftirlýstur. Browder var hér á landi í lok nóvember og flutti meðal annars fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Föstudaginn 25. desember segir í frétt The Daily Telegraph í London að nafnlaus heimildarmaður rússnesku Intrerfax fréttastofunnar segi að lögregluyfirvöld telji sig hafa „nýjar upplýsingar um fjársvik [Browders] við að sölsa undir eignir stórra rússneskra fyrirtækja“.

Heimildarmaðurinn gaf ekki frekari skýringar en sagði að málareksturinn hefði hafist 14. desember. Sama dag og aðalsaksóknari Rússlands, Júrí Tjsaika, fullyrti að Browder stæði að baki nýlegum uppljóstrunum þar sem Tjsaika og bandamenn hans eru sakaðir um spillingu.

Alexander Antipov, lögfræðingur Browders, sagðist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um kæru á hendur skjólstæðingi sínum.

Eins og þeir sem hafa lesið bók Browders eða hlustuðu á erindi hans hér landi vita er hann eindreginn andstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Hann sakar forsetann um mafíu-stjórnarhætti og telur að útsendarar hans kunni að ráða sig af dögum.

Árið 2013 dæmdi rússneskur dómstóll Browder fjarstaddan fyrir skattsvik og var gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum sem alþjóðalögreglan Interpol hafði að engu þar sem pólitískar ástæður lægju að baki henni.

Fyrir nokkru birti rússneski andófmaðurinn Alexei Navalníj greinargerð þar sem sagði að Tjsaika saksóknari legði blessun sína yfir spillingu meðal náinna vina sinna. Tjsaika sakaði Browder 14. desember um að standa að baki greinargerðinni, hann hefði „pantað“ hana. Sagði hann að Browder óttaðist sakamálarannsókn á gerðum sínum í Rússlandi og þess vegna hefði hann lagt á ráðin um áburðinn um spillingu í von um að grafa undan rússneskum yfirvöldum sem vildu varpa ljósi á afbrot Browders.

Viðbrögð Browders voru að blása á þetta og saka Tjsaika um aðild að morðinu á lögfræðingnum Sergei Magnitskíj. Hann var lögfræðingur Browders og sagðist árið 2007 hafa sannanir um spillingu innan rússnesku lögreglunnar, meðal skattheimtumanna, og innan réttarvörslu- og bankakerfisins. Hvarvetna væru tengsl inn í skipulagða glæpahópa.

Eftir að hafa skýrt frá vitneskju sinni um þessi afbrot var Magnistkíj handtekinn og sakaður um að hafa sjálfur framið brotinn. Hann dó í nóvember 2009 í fangelsi í Moskvu. Síðar kom í ljós að fangaverðir höfðu komið illa fram við hann og misþyrmt honum.

Bill Browder hefur einsett sér að knýja fram refsingu yfir þeim sem hann telur að hafi í raun myrt Magnistkíj.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …