
Rússneska TASS-fréttastofan skýrði frá því þriðjudaginn 14. júlí að sama dag hefði langdræg sprengjuvél rússneska flughersins, Tupolev Tu-95MS, farist í æfingaflugi í Khabarovsk-héraði í austasta hluta Rússlands. Var vitnað í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins en jafnframt ónefndan heimildarmann um að drepist hefði á öllum fjórum hreyflum vélarinnar. Áhöfnin bjargaðist.
Æfingaflugið var farið án vopna um borð. Vélarnar geta borið kjarnorkusprengjur. Vélin brotlenti á óbyggðu landi og engin eyðilegging var þar. Áhöfnin varpaði sér frá borði í fallhlífum þegar augljóst var hvað verða vildi. Björgunarsveitir leita að henni að sögn varnarmálaráðuneytisins. Unnið er að rannsókn slyssins og verða flugvélar af þessari gerð ekki sendar á loft fyrr en að henni lokinni.
Tupolev Tu-95MS-vélar eru kallaðar Bear – björninn – af NATO. Þær eru af sumum taldar tákn kalda stríðs aðgerða Sovétríkjanna sem sendu vélarnar til eftirlitsflugs víða um heim og ekki síst út á Norður-Atlantshaf. Þær hafa í áranna rás verið tíðir óboðnir gestir í nágrenni Íslands.
Varnarmálaráðuneytið í Moskvu sagði að tæknibilun hefði að öllum líkindum leitt til slyssins. TASS vitnar í heimildarmann sem segir að drepist hafi á öllum fjórum hreyflum vélarinnar.
Í frétt TASS segir að þetta sé ekki fyrsta slysið sem orðið hafi á TU-95 sprengjuvélum undanfarið. Hinn 8. júní rann TU-95MC-vél út af flugbraut í Armur-héraði vegna þess að eldur varð í hreyfli. Engin skotfæri voru um borð. Nokkrir í áhöfninni slösuðust þegar þeir yfirgáfu flugvélina.
Hinn 4. júní urðu tvö slys í rússneska flughernum. MiG-29 orrustuþota hrapaði til jarðar skammt frá Ashuluk og í Voronezh fórst Su-34 sprengjuvél í lendingu. Flugmennirnir björguðust í báðum tilvikum.
Hinn 3. júlí hrapaði MiG-29 orrustuþota í nágrenni Krasnodar, flugmaðurinn bjargaðist, og hinn 6. júlí brotlenti SU-24 í Khabarovsk-héraði, báðir flugmennirnir fórust.