
Bandaríkjastjórn og framkvæmdastjórn ESB gagrýndu ráðamenn í Moskvu mánudaginn 27. mars fyrir að hafa handtekið hundruð mótmælenda fyrir að taka þátt í aðgerðum gegn spillingu sunnudaginn 26. mars. Aleksei Navalníj, leiðtogi mótmælenda, var handtekinn og dómari sektaði hann fyrir að skipuleggja ólögleg mótmæli.
Rússneska lögreglan handtók aðgerðasinnan Navalníj (40 ára) sunnudaginn 26. mars þegar hann gekk ásamt stuðningsmönnum sínum frá lestarstöð í miðborg Moskvu. Þeir og þúsundir annarra um allt Rússland mótmæltu spillingu innan rússneska stjórnkerfisins. Engar sambærilegar aðgerðir gegn stjórnvöldum hafa sést árum saman í landinu.
Í yfirlýsingu ESB sagði að rússneskan lögreglan hefði komið í veg fyrir að fólk gæti notið sér réttinn til tjáningarfrelsis, félagafrelsis og friðsamlegra funda sem finna megi í stjórnarskrá Rússlands. Tafarlaust bæri að láta friðsama mótmælendur lausa. Mark Toner, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði handtökurnar „brot gegn lýðræðislegum gildum“.
„Ég hafna því að hafa brotið af mér,“ sagði Navalníj við dómarann. „Fólki var misboðið vegna spillingarinnar svo að það tók þátt í friðsamlegum mótmælum.“
Dómarinn úrskurðaði að hann skyldi greiða 20.000 rúblur (um 350 dollara) í sekt og dæmdi hann í 15 daga fangavist fyrir að veita lögreglu andstöðu við handtöku. Navalníj setti sjálfu á netið og sagði: „Sá tími kemur þegar við drögum þá fyrir rétt (hann verður hins vegar réttlátur).“
Roman Rybanov, forstjóri stofnunar Navalníjs, birti á Twitter myndskeið sem sýndi hóp stuðningsmanna reyna að hindra för lögreglubílsins sem flutti Navalníj á brott. Fjöldi óeirðalögreglumanna var á staðnum.
Þúsundir mótmælenda komu saman á torginu við lestarstöðina og hrópuðu margir: Smán! eða Varðhundar þjófa! Einn mótmælenda fór upp á stall frægrar styttu af skáldinu Aleksandr Pushkin og hélt á spjaldi með áletruninni: Pútín 666. Hann var þegar handtekinn.
Navalníj bauð sig fram í embætti borgarstjóra Moskvu árið 2013 og hann ætlar að bjóða sig fram í forsetakosningunum árið 2018. Hann hvatti stuðningsmenn sína að mótmæla áfram þótt hann hefði sjálfur verið handtekinn.
Talið er að í Moskvu einni hafi að minnsta kosti 800 verið teknir höndum.
Þegar litið er á mótmælin í borgum og bæjum um allt Rússland hefur ekki verið efnt til fjölmennari mótmæla í landiu frá 2011 og 2012 þegar þúsundir mótmæltu aðferðunum sem Vladimir Pútín og hans menn beittu í kosningum.
Fjöldinn í mótmælunum sunnudaginn 26. mars vekur meiri athygli en ella vegna þess að til þeirra var stofnað án leyfis frá yfirvöldunum. Nýlega voru sett lög sem herða enn refsingu þeirra sem efna til mótmæla án leyfis viðkomandi borgaryfirvalda.
Stofnunin sem starfar undir nafni Navalníjs birti fimmtudaginn 2. mars skýrslu þar sem Dmitríj Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, er sakaður um að nota góðgerðasamtök og frjáls félagasamtök til að safna fé frá auðmönnum og ríkisbönkum í því skyni að geta keypt dýrar fasteignir. Í myndskeiði sem Navalníj birti á YouTube sakaði hann Medvedev um að eiga stórhýsi, snekkjur og vínekrur í skjóli dulafullra góðgerðasamtaka og frjálsra félaga. Innan Kremlar hafa menn ekki svarað þessum ásökunumn og forsætisráðherrann hefur ekki sagt neitt um málið.
Navalníj sagði á vefsíðu sinni að efnt yrði til mótmæla í 99 rússneskum borgum. Neitað var um leyfi til þeirra í 72 borgum.
Í hafnarborginni Vladivostok, heimahöfn rússneska Kyrrahafsflotans, handtók lögregla að minnsta kosti 30 manns. Fjölmiðlar í borginni segja að um 1.000 manns hafi tekið þátt í mótmælunum sem voru ekki leyfð af borgaryfirvöldum.
Um 2.000 manns komu saman í Novosibrisk í Síberíu. Þar hafði fengist leyfi til mótmælanna. Haldið var á spjöldum með áletruninni: Höfnum spillingu! Á sumum spjaldanna voru myndir af gulum gúmmíöndum en frá því hafð verið skýrt að Medvedev ætti sérstakt hús fyrir endur á einni fasteign sinni.
Í desember 2016 tilkynnti Navalnij að hann ætlaði að bjóða sig fram í forsetakosningunum í mars 2018. Rússnesk yfirvöld segja að Navalníj fái ekki að bjóða sig fram dæmi áfrýjunardómstóll hann fyrir fjármálamisferli. Hann lætur það ekki aftra sér.