Home / Fréttir / Rússnesk orrustuvél eyðileggur bandarískan dróna yfir Svartahafi

Rússnesk orrustuvél eyðileggur bandarískan dróna yfir Svartahafi

Bandarískur drón af gerðinni MQ-9 Reaper.

Rússnesk orrustuþota rakst á bandarískan dróna þriðjudaginn 14. mars yfir Svartahafi. Ómannaða bandaríska loftfarið brotlenti á alþjóðlegu hafsvæði að sögn bandarísku herstjórnarinnar í Evrópu (EUCOM).

Um klukkan sjö að morgni á staðartíma flugu tvær rússneskar SU-27 vélar „óvarlega og ófagmannlega“ í veg fyrir MQ-9, dróna bandaríska flughersins, segir EUCOM.

Önnur Su-27 vélanna snerti hreyfil drónans, segir EUCOM. Það neyddi stjórnanda hans til að steypa honum niður í Svartahafið.

Nokkrum sinnum fyrir áreksturinn losuðu flugmenn SU-27 vélanna eldsneyti á drónann og flugu glannalega fyrir framan hann og mjög ófagmannlega að sögn EUCOM.

James Hecker, hershöfðingi, yfirmaður bandaríska flughersins í Evrópu og Afríku, sagði að MQ-9 dróninn hefði verið við venjulegt eftirlit í alþjóðlegu loftrými þegar rússneska orrustuþotan flaug á hann á ábyrgðarlausan og ófagmannlegan hátt.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að bandaríski dróninn hefði snarbeygt og brotlent í sjónum eftir að hafa mætt rússneskum orrustuþotum sem sendar voru í veg fyrir hann skammt frá Krímskaga. Ráðuneytið tók skýrt fram að ekki hefði verið skotið á drónann.

EUCOM sagði að atvikið ætti rætur að rekja til síendurtekinna hættulegra aðgerða rússneskra flugmanna í alþjóðlegu loftrými, þar á meðal yfir Svartahafi. Flug af þessu tagi gæti leitt til mistaka sem síðan yrðu til þess að stigmagna hættulegt ástand fyrir tilviljun.

Þetta atvik yfir Svartahafi er sagt einstakt þrátt fyrir að oft sé um fyrirflug af hálfu Rússa að ræða og einnig af hálfu flugvéla þeirra ríkja sem sinna loftrýmiseftirliti.

EUCOM sagði ekki hvar MQ-9 hóf sig á loft en Bandaríkjamenn senda dróna á loft frá fleiri en einum stað við Svartahaf, þar á meðal frá Mihail Kogalniceanu flugherstöðinni í Rúmeníu. Þá sendir bandaríski flugherinn eftirlitsvélar frá Campia Turzii flugherstöðinni í Mið-Rúmeníu.

Joe Biden Bandaríkjaforseta var skýrt frá atvikinu. Talsmaður forsetans sagði að embættismenn utanríkisráðuneytisins myndu tala beint við rússneska utanríkisráðuneytið og láta í ljós áhyggjur Bandaríkjastjórnar vegna þessarar ábyrgðarlausu og ófagmannlegu framgöngu.

Rússneskir stjórnarerdindrekar svara gagnrýni frá Washington fullum hálsi og segja bandaríska dróna eiga að halda sig fjarri Rússlandi.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …