Home / Fréttir / Rússnesk orrustuþota ógnar sænski eftirlitsflugvél

Rússnesk orrustuþota ógnar sænski eftirlitsflugvél

 

Sænska varnarmálaráðuneytið sendi þessa mynd af flugatvikinu til fjölmiðla.
Sænska varnarmálaráðuneytið sendi þessa mynd af flugatvikinu til fjölmiðla.

 

Rússneski sendiherrann var kallaður í sænska utanríkisráðuneytið mánudaginn 25. febrúar til að skýra hvers vegna rússnesk orrustuþota flaug innan við 20 m frá sænskri eftirlitsflugvél fyrir nokkrum dögum.

Diana Qudhaib, upplýsingafulltrúi sænska utanríkisráðuneytisins, sagði að ráðuneytið liti þetta atvik „alvarlegum augum“. Rússnesku vélinni hefði verið flogið af ábyrgðarleysi og ófagmannlega fyrir utan að vega að flugöryggi.

Atvikið varð þriðjudaginn 19. febrúar þegar sænsk eftirlitsflugvél var að venjubundnum störfum yfir Eystrasalti. Sænska flugvélin var utan lofthelgi milli Gotlands og Eystrasaltsríkjanna þegar SU-27 orrustuþotu var flogið af stað frá Kaliningrad í átt að sænsku vélinni.

Anders Persson offursti sagði að rússneski orrustuflugmaðurinn hefði sýnt af sér árásarhneigð.

„Fyrst flaug hann fyrir framan og síðan kom hann aftan frá og tók sér stöðu mjög, mjög nálægt – nær en venjulegt,“ sagði hann við TT-fréttastofuna.

Persson sagði að rússneska SU-27 þotan hefði eitt sinn verið innan við 20 m frá vél hans. Hann safði að „árásargjörn hegðunin“ væri líklega skilaboð frá Rússum um að þeim þætti að sænska vélin „ætti ekki að vera þar sem hún var“.

Sænski herinn gerði ríkisstjórninni vart um atvikið og nú hefur utanríkisráðuneytið gripið til sinna ráða.

Qudhaib segir að sænska vélin hafi verið í fullum rétti á alþjóðlegri flugleið. Peter Hultqvust varnarmálaráðherra sagði að atvikið væri „óviðunandi“. Hann sagði við sænska ríkisútvarpið SVT : „Þetta var alveg ónauðsynlegt, ögrandi og hættulegt.“

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …