Home / Fréttir / Rússnesk orrustuþota í veg fyrir bandarískar spengjuþotur yfir Barentshafi

Rússnesk orrustuþota í veg fyrir bandarískar spengjuþotur yfir Barentshafi

Einni KC-135 sem studdi bandarísku sprengjuþoturnar var flogið til baka í áttina að Luleå í Norður-Svíþjóð eftir að hafa athafnað sig yfir Noregshafi fyrir norðan Tromsø.

Tvær bandarískar B-1B langdrægar sprengjuþotur flugu ásamt eldsneytisvél yfir Noreg og í alþjóðlegri lofthelgi yfir Noregs- og Barentshöfum í áttina að rússneska Kólaskaganum sunnudaginn 24. mars.

Síðdegis þennan sunnudag var MiG-31 orrustuþota send á loft frá flugherstöð á Murmannsk-svæðinu til móts við vélarnar en þær sneru frá rússneskri lofthelgi að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins.

Á norsku vefsíðunni Barents Observer segir mánudaginn 25. mars að norski herinn vilji ekki segja mikið um flugið. Af hálfu sameiginlegu herstjórnarinnar í Bodø hafi þó verið staðfest að vélarnar hafi verið í norskri lofthelgi áður en þeim var flogið út yfir Barentshaf.

Reigar Flasnes, upplýsingafulltrúi herstjórnarinnar, segir að vélarnar hafi bæði verið í norskri og alþjóðlegri lofthelgi. Ekki sé unnt að veita nánari upplýsingar enda stjórni Bandaríkjamenn ferðum vélanna að fengnu samþykki norska varnarmálaráðuneytisins.

Barents Observer segir að þrjár bandarískar eldsneytisvélar, US KC-135R Stratotankers, hafi tekið þátt í aðgerðinni og hafi þær komið frá Mildenhall-flugherstöðinni í London að morgni sunnudagsins. Eldsneytisvélunum hafi verið flogið norður yfir Noreg og Svíþjóð. Sprengjuþoturnar og hugsanlega einnig orrustuþotur hafi tekið eldsneyti úr vélunum á flugi fyrir norðan heimskautsbaug.

Fyrir rúmri viku lauk NATO-æfingunni Nordic Response sem Norðmenn stjórnuðu innan ramma æfingarinnar miklu Steadfast Defender 2024. Um 20.000 hermenn, herflugvélar og meira en 50 kafbátar, freigátur, korvettur, flugmóðurskip og ýmiss konar landgönguskip tóku þátt í Nordic Response. Æfingin snerist um að senda liðsauka norður fyrir heimskautsbaug til aðstoðar við Norðmenn eftir að árás hafði verið gerð á land þeirra.

 

 

Einni KC-135 sem studdi bandarísku sprengjuþoturnar var flogið til baka í áttina að Luleå í Norður-Svíþjóð eftir að hafa athafnað sig yfir Noregshafi fyrir norðan Tromsø.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …