Home / Fréttir / Rússnesk njósnaskip á norsku landgrunni

Rússnesk njósnaskip á norsku landgrunni

Akademik Lazarev

Undanfarna mánuði hafa starfsmenn norska hersins og leyniþjónustustofnana fylgst með ferðum rússneska rannsóknaskipsins Akademik Lazarev. Nú beinist athygli þeirra að fleiri skipum. Norskir sérfræðingar lýsa þeim sem njósnaskipum.

Ståle Ulriksen, sérfræðingur við Forsvarets høgskole/Sjøkrigsskolen, segir í samtali við blaðið Dagens Næringsliv föstudaginn 22. október að skipum af Akademik- og Mekhanik-gerð sé lýst með rannsóknarskipum rússneska ríkisins.

„Þetta eru borgaraleg skip sem eru notuð í hernaðarlegum tilgangi. Þau þjóna ríkinu að öllu leyti. Það eru ekki margar góðar ástæður fyrir að kortleggja norsk mannvirki á hafsbotni ef menn ætla ekki að nota vitneskjuna til einhvers. Frá skipunum er unnið að kortlagningu á viðkvæmum búnaði og að iðnaðarnjósnum,“ segir Ulriksen.

Öryggisráð norsks atvinnulífs hefur um langt skeið fengið margar ábendingar grunsamleg tilvik frá þeim sem eru aðilar að ráðinu. Norsk og erlend fyrirtæki senda frá sér hættutilkynningar þegar þau sjá áhafnir rússneskra rannsóknaskipa vinna skipulega að skráningu olíu- eða gasleiðslna á landgrunni Noregs.

„Leyniþjónusta hersins og öryggislögreglan hafa lengi varað við því í opinberu hættumati sínu að erlendir njósnarar leiti eftir upplýsingum um norskt atvinnulíf,“ segir Odin Johannessen, forstjóri öryggisráðs atvinnulífsins.

Í hættumatinu er sérstaklega vikið að neðansjávartækni og að hún veki áhuga erlendra njósnara þar sem hana megi nýta á fjölbreyttan hátt í þágu hernaðar. Þetta á ekki aðeins við um leiðslur eða önnur mannvirki á hafi úti heldur einnig netárásir, tilraunir til að ráða tæknimenn til starfa og ferðir skipa sem stunda eftirlit með starfsemi fyrirtækjanna.

Rannsóknaskipið Akademik Lazarev hefur reglulega athafnað sig undan strönd Noregs í rúman áratug. Það er skráð í eigu félagsins Jsc Sevmorneftegeofizika sem sinnir jarðeðlisfræðilegum rannsóknum á hafi úti og er dótturfélag rússneska jarðfræðifélagsins Rosgeo.

Útgerðarfélag skipsins segir að undanfarna mánuði hafi það safnað jarðeðlisfræðilegum hafsbotnsgögnum á 8.565 km og einnig stundað skjálfta rannsóknir í lögsögu Breta, Norðmanna og Dana. Þá hafi verið teknar myndir af hafsbotninum.

 

 

 

 

Skoða einnig

Macron „hélt andlitinu“ í síðari umferð þingkosninganna

Útgönguspár að lokinni annarri umferð þingkosninganna í Frakklandi sýna að spár um að Þjóðarhreyfing Marine …