Home / Fréttir / Rússnesk korvetta ógnar Borgundarhólmi

Rússnesk korvetta ógnar Borgundarhólmi

Fremsta skipið á myndinni er rússnesk korvetta.

Rússneskt herskip, korvetta, lagði aðfaranótt födtudags 17. júní leið sína upp undir strönd dönsku eyjarinnar Borgundarhólms á Eystrasalti. Rauf herskipið tvisvar sinnum landhelgi Danmerkur. Um þessar mundir er svonefnt Folkemøde á Borgundarhólmi, lýðræðishátíð með forystumönnum í stjórnmálum og frjálsum félagasamtökum. Þátttakendur í árlegri hátíðinni skipta tugum þúsunda.

Í fyrra skiptið sigldi herskipið inn í danska landhelgi klukkan hálf þrjú aðfaranótt 17. júní fyrir norðan Christiansø við Borgundarhólm.

Morten Bødskov varnarmálaráðherra segir að danski herinn hafi brugðist við með því að senda eftirlitsskip á vettvang.

Nokkrum klukkustundum síðar sigldi rússneska korvettan aftur inn í danska landhelgi fyrir norðan Christiansø. Við svo búið hélt skipið á brott úr danskri lögsögu segir í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins.

Danski flotinn náði sambandi við rússneska skipið með því að nota borgaralegt VHF-loftskeytasamband.

Vegna lýðræðishátíðarinnar er stór hluti dönsku ríkisstjórnarinnar og flestir þingmenn landsins auk annarra forystumanna nú í Allinge á Borgundarhólmi.

Ríkisstjórnin lítur á ferðir rússneska herskipsins sem grófa, markvissa ögrun af hálfu Rússa.

Morten Bødskov varnarmálaráðherra efndi til blaðamannafundar sem sýndur var beint á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2. Sagði hann þetta grófa aðför og grófa ögrun af hálfu Rússa gegn Danmörku og dönsku yfirráðasvæði.

Hann sagði að þeir sem tækju þátt í Folkemødet sættu ekki beinni ógn og ekki heldur Danmörk eða Borgundarhólmur. Atvikið sýndi hins vegar að Eystrasaltið sé og verði „háspennusvæði“.

„Framvegis verður meiri spennan en áður á Eystrasalti vegna stríðsins í Úkraínu og vegna þess að Svíar og Finnar eru á leið í NATO,“ sagði varnarmálaráðherrann. Hann sagðist ekki vita hvort skipið hefði verið vopnað þegar það sigldi inn í danska landhelgi.

Á Twitter segir Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana, að Vladimir V. Barbin, sendiherra Rússa, verði kallaður tafarlaust í utanríkisráðuneytið.

„Eineltisaðferðir gagnvart Dönum skila engu,“ segir Kofod.

Nú eru tvær danskar F-16 orrustuþotur á Borgundarhólmi til að unnt sé að bregðast með sérstaklega skömmum fyrirvara við brotum gegn dönskum yfirráðarétti.

Reglulega sýna rússneskar hervélar sig við danska lofthelgi og jafnvel innan hennar, þá fljúga danskar orrustuþotur í veg fyrir vélarnar.

Þetta er ekki heldur í fyrsta sinn sem rússneski herinn lætur að sér kveða við Borgundarhólm á sama tíma og Folkemødet er haldið. Árið 2014 æfðu rússneskar hervélar í lágflugi loftárás á eyjuna.

Ári síðar flaug bandarísk B-52 sprengjuvél lágflug yfir Borgundarhólm í tengslum við árlegu NATO-heræfinguna Baltops á Eystrasalti. Þeim er nú nýlega lokið í ár.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …