Home / Fréttir / Rússnesk kona segir dönsk börn drekka vatn úr drullupollum vegna fátæktar lúsugra foreldra

Rússnesk kona segir dönsk börn drekka vatn úr drullupollum vegna fátæktar lúsugra foreldra

Við Kaupmannahöfn
Við Kaupmannahöfn

Eftir fimm ára dvöl í Danmörku hafði rússneska konan Tatjana Lukasjenko fengið sig fullsadda.

„Algjör skortur á hreinlæti er himinhrópandi. Hvarvetna gengur fólk um í óhreinum, krumpuðum og slitnum fötum. Konur hirða ekkert um sig sjálfar,“ skrifar hún um dvöl sína í danska konungsríkinu, segir í frásögn eftir fréttaritara Jyllands-Posten í Moskvu sunnudaginn 23. október.

Rússneska konan segist í Danmörku hafa hitt fólk sem sé ekki aðeins illa haldið af lús heldur neyðist til að gefa börnum sínum vatn að drekka úr drullupollum. Þá verði það að sætta sig við ömurlega heilbrigðisþjónustu, háa skatta og okurverð á öllu frá húsnæði til neysluvarnings.

Fréttaritarinn segir að kveinstafir konunnar um Danmörku hafi birst víða í Rússlandi meðal annars á stærsta netblaði landsins, Gazeta.ru og á samfélagsmiðlum.

Lýsingin vakti nokkra undrun meðal þeirra lesenda sem höfðu hugmynd um raunveruleg lífskjör fólks utan Rússlands.

Svipaðar ógnarlýsingar um erfið lífskjör í öðrum Evrópulöndum og Norður-Ameríku birtast nú æ oftar í rússnesku sjónvarpi og netmiðlum. Líklegt er að áheyrendur kunni almennt vel að meta boðskapinn því að aðeins fimmti hver Rússi á vegabréf og margir nota það aðeins til að fara í stuttar sólarlandaferðir.

„Það er betra fyrir Rússa að búa í Rússlandi. Maður verður að elska og virða það sem maður á,“ segir Tatjana Lukasjenko í lok útlistunar sinnar á dvöl sinni í Danmörku.

Skoðun hennar fellur vel að boðskapnum sem rússneskir ráðamenn vilja að boðaður sé. Samhliða því sem samskiptin við Vesturlönd kólna leggja Kremlverjar meira á sig til að fá Rússa til að snúa heim frá útlöndum ef marka má fjölgun frétta í þá veru undanfarið.

Á netmiðlinum znak.ru sagði nýlega að rússneskir embættismenn allt til æðstu manna væru hvattir til að kalla börn sín heim úr skólum í útlöndum. Fyrirmælin sem rakin voru til Vladimirs Pútíns forseta ná einnig til skyldmenna embættismanna og stjórnmálamanna.

Bent er á að þótt fluttur sé óhróður um Vesturlönd að undirlagi rússneskra stjórnvalda stundi elíta landsins enn umtalsverðar fjárfestingar og umsvif í Evrópu og Norður-Ameríku. Þangað fara allir sem betur mega sín í frí, senda börn sín þangað í skóla og sækja þjónustu á einkasjúkrahús. Þar eiga þeir lúxusíbúðir og snekkjur og stóran hluta fjármuna sinna.

Þetta skapar margvíslegan vanda fyrir Kremlverja, segir fréttaritari Jyllands-Posten.

„Allskonar hneyksli hafa verið fastur liður undanfarin ár vegna þess að börn rússnesku stjórnmálaelítunnar hljóta menntun í útlöndum á sama tíma og foreldrar þeirra birtast á sjónvarpsskermunum og tala um ættjarðarást og að vera „umkringdir óvinum“,“ segir á znak.ru.

Þrátt fyrir allan áróðurinn um að Rússar eigi að snúa heim er straumurinn þó enn í hina áttina.

Fræðimennirnir Olga Vorobjeva og Aleksander Grebenjuk segja í nýlegri skýrslu að brottflutningur hámenntað fólks hafi aukist til mikilla muna undanfarin ár. Opinberar rússneskar tölur sýna að um 350.000 Rússar fluttu úr landi árið 2015. Sérfræðingarnir telja að þessar tölur sýni aðeins brot af fjöldanum, hann hafi verið þrisvar til fjórum sinnum meiri. Á fyrsta áratug aldarinnar fluttu um 50.000 manns á brott ár hvert. Alls hafa um 4,5 milljónir Rússa flutt úr landi síðan 1989.

Almennt eru það fjölskyldur ungs fólks frá Moskvu og St. Pétursborg eða öðrum stórborgum sem reyna nú að flytjast vestur á bóginn. Bágt efnahagsástand dregur jafnt og þétt úr lífskjörum rússnesks almennings. Þá sætta frjálslyndir Rússar sig illa við stefnu og stjórnarhætti Pútíns.

„Óskin um að útvega sér svokallaðan „öruggan lendingarstað“ (í mynd dvalarleyfis, eignar í útlöndum, tvöfalds ríkisborgararéttar o.fl.) setur svip sinn á viðhorf sífellt meiri fjölda fólks meðal þeirra Rússa sem hafa það best,“ segir í skýrslunni.

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …