
Njósnastofnun norska hersins segir í nýjustu ársskýrslu sinni FOKUS 2023 að þrjú herfylki, 3000 hermenn, hafi verið send frá Kólaskaga við austurlandamæri Noregs til vígvallanna í Úkraínu og um „helmingur þeirra hafi fallið“, það er um 1500 hermenn. Þá hafi Norðurflotinn misst allt að 100 skriðdreka og brynvarin ökutæki.
Sumarið og haustið 2022 bættust nýir hermenn í 200. véla-stórfylkið á Kólaskaga. Í hópnum voru sjálfboðaliðar, gamlir hermenn og nýliðar, það er þeir sem kallaðir voru til herþjónustu eftir 21. september 2022.
Langflestir nýliðanna höfðu litla eða enga reynslu af hermennsku og þeir voru aðeins fáeinar vikur við þjálfun á Kólaskaga.
Sumir þeirra sem voru kallaðir í herinn samkvæmt fyrirmælum Pútins um herkvaðningu fengu aðeins riffil í 200. stórfylkinu og voru síðan sendir svo að segja beint að víglínunni. Aðrir segjast hafa fengið málaða hjálma frá árinu 1941.
Nú hafa margir þessara manna fallið í átökunum í austurhluta Úkraínu.
Breska varnarmálaráðuneytið hefur birt tölur sem sýna að blóðtakan hafi verið mikil fyrstu dagana í febrúar. Í tilkynningu ráðuneytisins sunnudaginn 12. febrúar segir að dagana sjö á undan hafi að meðaltali 824 rússneskir hermenn fallið dag hvern. Það er fjórum sinnum hærri tala en daglegt meðal mannfall í júní og júlí 2022.
Í upphaflegum innrásarher Rússa fyrir tæpu ári voru um 200.000 hermenn og telur norska njósnastofnunin að um helmingur þess hers liggi nú í valnum. Óljóst er hve stór hluti sjálfboðaliða eða nýliða sem síðan hafa farið í stríðið er enn á lífi.
Fréttaskýrendur segja að hvað sem öðru líði sé ljóst að Vladimir Pútin og stjórn hans hafi stofnað til versta sjálfskaparvítis rússnesku þjóðarinnar síðan Stalín lét eigin grimmd bitna á eigin þjóð með aftökum og hungursneyð.
Njósnastofnun norska hersins segir að líta beri á bakslag hefðbundins herafla Rússa í norðri sem tímabundið. Það beri að horfa fram hjá veikri stöðu rússneska hersins nú þegar gerðar séu framtíðaráætlanir. Rússar taki mið af ömurlegri reynslu sinni í Úkraínu við gerð nýrra vopna og tækja og við skipulag heraflans.
Á norsku vefsíðunni Barents Observer segir mánudaginn 13. febrúar að langdrægar sprengjuflugvélar Rússa hafi verið fluttar frá Engels flugherstöðinni í Saratov eftir að Úkraínumenn gátu grandað þeim þar. Nýlegar gervihnattarmyndir gefi til kynna að spengjuvélar af gerðinni Tu-95 og/eða Tu-160 standi í röðum á hlaði Olenegorsk flugherstöðvarinnar fyrir sunnan Múrmansk. Þá er minnt á að langdrægu rússnesku kafbátarnir, þungmiðja fælingarmáttar Rússa, eigi evrópska heimahöfn í Gadzhhijevo, aðeins í 100 km frá landamærum Noregs.
Yfirmaður njósnastofnunar norska hersins, Nils Andreas Stensønes flotforingi, segir að mikilvægir hlutar af herafla Rússa séu utan við stríðið í Úkraínu. Þetta eigi við um strategíska heraflann á Kólaskaga, þar séu kjarnavopn, kafbátar, herskip, langdræg loftvarnakerfi og búnaður til rafeindahernaðar. Við engu af þessu hafi verið hróflað.
Stensønes segir að um tíma muni kjarnavopn gegna meira hlutverki en venjulegur herafli við svæðisbundnar varnir Rússa.
„Í þessu felst að kjarnorkuþröskuldurinn lækkar, einnig á svæðum í nágrenni Noregs.“
Barents Obeserver segir að af því sem fram komi í FOKUS 2023 sé fréttnæmast það sem segi um að herskip Norðurflotans verði að nýju búin skammdrægum kjarnavopnum á hafi úti.
„Miðlægan hluta kjarnavopnanna er að finna í kafbátum og um borð í herskipum Norðurflotans. Af skammdrægum kjarnavopnum stafar sérstaklega alvarleg hætta komi til aðgerða af ýmsu tagi sem geti leitt til þátttöku NATO ríkja,“ segir í ársskýrslu norsku njósnastofnunarinnar.
Á tíma Sovétríkjanna sigldu herskip frá Severomorsk á Kólaskaga með skammdræg kjarnavopn en síðan á lokadögum kalda stríðsins hefur aldrei legið eins skýrt fyrir og nú að þau séu um borð í rússneskum herskipum að nýju.
Í skýrslu til Bandaríkjaþings í fyrra um kjarnavopnastefnu Rússa og endurnýjun vopna var staðfest að ýmis skammdræg skotkerfi fyrir kjarnavopn hefðu verið smíðuð. Í skýrslunni var á hinn bóginn tekið fram að aldrei hefði verið staðfest að stýriflaugar sem geta borið kjarnavopn, Kalibr, Tsirkon og önnur kerfi um borð í skipum hefðu verið með kjarnavopn á hafi úti. Talið er að Rússar eigi um 2000 skammdræga kjarnaodda.
Í Barents Observer segir að nýlega hafi talsmenn Kremlarstjórnar ekki slegið um sig með hótunum um beitingu kjarnavopna. Þess í stað hafi Dmitri Medvedev, fyrrv. forseti, og Vladimir Solovjov sjónvarpsáróðursmaður verið látnir krefjast kjarnorkuárása á NATO.
Heimild: Berents Observer.