Home / Fréttir / Rússnesk herstöð opnuð á 80° norður

Rússnesk herstöð opnuð á 80° norður

 

Nagurskoje-herstöðin.
Nagurskoje-herstöðin.

 

Fjórtán þúsund fermetra Nagurskoje-herstöð Rússa á Aleksandra-eyju við Franz Josef Land er fullsmíðuð og tilbúin til notkunar. Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur birt myndir af herstöðinni en mannvirkin þar eru sögð þau stærstu sem reist hafa verið svo norðarlega á hnettinum og er þá litið allt í kringum pólinn.

Stöðin er máluð í rússnesku fánalitunum. Þar geta allt að 150 hermenn búið og starfað. Nálægt stöðinni er endurgerður flugvöllur en framkvæmdir við hann falla undir heildaráætlun rússneskra stjórnvalda um endurnýjun allra mannvirkja í þágu hersins á norðurslóðum.

Þegar framkvæmdir við nýju herstöðina hófust árið 2014 sagði Sergei Shojgu varnarmálaráðherra að sett yrði í forgang að reisa hernaðarmannvirki á norðurslóðum.

Í mars heimsótti Vladimír Pútin Rússlandsforseti Nagurskoje-herstöðina í fylgd varnarmálaráðherrans. Aldrei fyrr hafði jafn háttsettur hópur rússneskra fyrirmennina heimsótt Franz Josef Land og fylgdi Pútín í þessari ferð. Frá herstöðinni hélt forsetinn til Arkhangelsk þar sem hann hitti meðal annarra Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, á norðurslóðaráðstefnu.

Á myndum rússneska varnarmálaráðuneytisins má aðeins sjá byggingar í herstöðinni, ekki eru sýnd nein hergögn.

Í stöðinni er orkuver til upphitunar, olíu- og eldsneytistankar, birgðastöð fyrir matvæli og útbúnað hermanna, frárennslis- og sorpstöð auk þess verkstæði og geymslur fyrir tæki. Stöðin á að vera sjálfri sér nóg við erfiðar heimskautsaðstæður,

Nagurskoje-herstöðin er á 80°norður og er stærsta mannvirkið á fjarlægum norðurslóðum. Stöðin er 2.000 fermetrum stærri en háskólamiðstöð Norðmanna í Longyearbyen á Svalbarða sem var opnuð árið 2006. Longyearbyen er á 78° norður.

Heimild: Independent Barents Observer.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …