Home / Fréttir / Rússnesk herskip taka upp sama mynstur og í kalda stríðinu

Rússnesk herskip taka upp sama mynstur og í kalda stríðinu

Rússneska herskipið Admiral Gorshkov er lengst til hægri á þessari mynd.
Rússneska herskipið Admiral Gorshkov er lengst til hægri á þessari mynd.

Valeríj Gerasimov, yfirmaður rússneska herráðsins, kynnti miðvikudaginn 27. desember áætlanir um fasta viðveru rússneskrar flotadeildar í austurhluta Miðjarðarhafs eftir að hernaðaraðgerðum Rússa lýkur í Sýrlandi.

Tilkynningin er birt í rússneskum fjölmiðlum á sama tíma og vestrænir fjölmiðlar skýra frá ferðum rússneskra herskipa á Ermarsundi, við strendur Bretlandseyja og í nágrenni Danmerkur.

Breski flotinn sendi um jólin frá sér tilkynningu um að skip hans hefðu orðið að fylgja eða fylgjast með fjórum rússneskum herskipum. Í tilkynningu flotans segir að orðið hafi „skyndileg aukning“ í ferðum rússneskra skipa á eftirlitssvæði flotans auk þess er lýst áhyggjum vegna hættu á að rússneskir kafbátar valdi tjóni á mikilvægum net-neðansjávarstrengjum yfir Atlantshaf.

Bresk yfirvöld sendu frá sér myndir sem sýna freigátuna St Albans fylgja nýja rússneska herskipinu Admiral Gorshkov á Norðursjó á annan jóladag. Á jóladag fylgdi breska eftirlitsskipið Tyne rússnesku njósnaskipi um Ermarsund og Norðursjó. Þá voru Wildcat-þyrlur flotans sendar á vettvang til að fylgjast með tveimur öðrum rússneskum skipum.

Gavin Williamson er nýskipaður varnarmálaráðherra Breta. Hann segir í tilefni af ferðum rússnesku skipanna að Bretar „hiki ekki við að verja siglingaleiðir sínar“ og enginn skuli leyfa sér að „vega að“ Stóra-Bretlandi.

Nils Christian Wang, flotaforingi og forstöðumaður Forsvarsakademiet, Varnarmálaháskólans, í Danmörku segist hafa fylgst með ferðum rússnesku herskipanna og að þær falli að nýrri heildarmynd:

„Almennt hafa Rússar aukið umsvif Norðurflota síns með siglingu út á hafið suður með Noregi, Íslandi og Bretlandi. Það er til marks um að Rússar fylgja að nýju svipuðu mynstri og í kalda stríðinu. Í huga Rússa er það einkenni stórveldis að vélar þess geta flogið og skip þess siglt að eigin vilja.“

Wang minnir á að sl. sumar hafi Rússar siglt stórum kjarnorkukafbáti um Stórabelti til að taka þátt í æfingu inni í Eystrasalti. Þetta sé til marks um að þeir vilji vera sýnilegir. Í júní sigldi 172 m langi, kjarnorkuknúni kafbáturinn, Dmitríj Donskoj ofansjávar undir brúna á Stórabelti.

Áhöfn kafbátsins var í fullum rétti enda er Stórabelti alþjóðleg siglingaleið. Danski flotinn fylgdist með ferð kafbátsins.

Wang segir að danski flotinn haldi úti eftirliti á Atlantshafi með skipum sem séu þar að störfum alla daga ársins.

Heimild: Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …