
Úkraínuher notaði Storm Shadow-flugskeyti frá Bretlandi í árás sem olli tjóni á rússneskum kafbáti og herskipi í flotahöfninni Sevastopol á Krímskaga miðvikudaginn 13. september.
Rússar segja að 10 flugskeytum og þremur tundurskeytadrónum hafi verið skotið á Sevastopol. Hafa Úkraínumenn ekki sótt svo hart gegn borginni áður frá því að stríðið hófst. Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að sjö flugskeytum hefði verið grandað og öllum drónunum í hafinu.
Frá Úkraínumönnum og Bretum berast hins vegar fréttir um að Storm Shadow- flugskeytin hafi skilað sínu í árás sem eyðilagði einn af öflugustu kafbátum Rússa, það er endurbættan árásarkafbát af Kilo-gerð. Þá hafi landgönguskip einnig orðið fyrir tjóni.
Á rússneska Telegram-samfélagsmiðlinum sagði: „Því miður náðu þrjú Storm Shadow-flugskeyti til skotmarka sinna. Landgönguskipið Minsk og kafbáturinn Rostov-on-Don, sem var í þurrkví, urðu fyrir margvíslegu tjóni.“
Úkraínskar orrustuþotur skjóta Storm Shadow flugskeytum en þau eru langdrægustu skeytin í vopnabúri Úkraínuhers. Þau hafa verið notuð frá því í maí til að ráðast á rússneskar birgðageymslur og stjórnstöðvar handan víglínunnar.
Á myndskeiði má sjá stórar sprengingar og eldsvoða við Sevmorzavod-slippinn í Sevastopol en hann er notaður til viðgerða á rússneskum herskipum.
H.I. Sutton, sérfræðingur í sjóhernaði, segir að árásin á Rostov-on-Don, kafbát af Kilo-gerð, sé „stórmál“ þar sem hann hafi verið notaður til að skjóta Kalibr-flugskeytum á borgir í Úkraínu.
„Það skiptir einnig máli að skotið var á hann í þurrkví. Rússar eiga fáar þurrkvíar í Sevastopol,“ segir hann.
Rússar eiga aðeins fjóra dísilknúna Kilo-kafbáta í Svartahafi en þeim er haldið úti til að skjóta Kalibr-stýriflaugum á Úkraínu. Sutton lýsir þeim sem „ógnvænlegustu tækjum rússneska flotans“.
Með árásinni taka Úkraínumenn upp nýja bardagaaðferð.
Til þessa hafa þeir treyst á dróna á lofti og í sjó til árása á rússneska flotann. Ben Hodges, fyrrv. hershöfðingi í Bandaríkjaher, segir að úkraínskir sérsveitarmenn hafi ráðist á rússneska ratsjá í aðdraganda flugskeytaárásarinnar og þar með aftengt hluta loftvarnakerfisins umhverfis Sevastopol.
„Þetta líkist því einna helst að um samhæfða aðgerð sé að ræða. Sérsveitarárás til að eyðileggja ratsjá og síðan margþætta árás á Sevastopol,“ segir hann.